Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2019

0
953
Þorlákur Helgi Pálmason, íþróttamaður USÚ 2019 og Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ. Mynd: SÓJ

Þann 2. júní síðastliðinn fór fram 87. ársþing USÚ en það fór fram í Stekkhól, félagsheimili Hestamannafélagsins Hornfirðings Þingið var vel sótt, 38 fulltrúar af 46 mættu og öll félög sendu fulltrúa. Til stóð að halda þingið þann 24. mars en í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 var þinginu frestað.
Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Það má segja að árið 2019 hafi verið viðburðaríkara en mörg önnur hjá stjórn USÚ. Lang fyrirferðarmesti viðburðurinn var Unglingalandsmótið sem haldið var á Höfn um verslunarmannahelgina. Einnig fóru formaður og gjaldkeri USÚ, auk framkvæmdastjóra Sindra í kynnisferð á vegum UMFÍ til Kaupmannahafnar á vordögum. Sú ferð heppnaðist afar vel og ýmis góð tengsl mynduðust við aðra úr hreyfingunni.
USÚ sendi fulltrúa sína á þá fundi og þing sem okkur bar, eins og sambandsþing UMFÍ og íþróttaþing ÍSÍ. Tvennt bar helst til tíðinda frá sambandsþingi UMFÍ. Í fyrsta lagi það að samþykktar voru tillögur þess efnis að íþróttabandalögin, þ.e. ÍBR, ÍA og ÍBA fengu inngöngu í UMFÍ. Það opnar líka dyrnar fyrir hin íþróttabandalögin, ÍRB, ÍS, ÍBH og ÍBV. Við þetta fjölgaði félögum í ungmennafélagshreyfingunni mjög mikið. Það bar einnig til tíðinda að Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri USÚ, náði kjöri í aðalstjórn UMFÍ, þar sem hann situr nú sem ritari samtakanna. Eftir því sem við komumst næst hefur USÚ aldrei áður átt fulltrúa í aðalstjórn UMFÍ.
Ein tillaga þingsins fól í sér hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina og einnig hvatningu til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.
Gleðilegasta tillaga þingsins var þó líklega sú að Klifurfélag Öræfa, KFÖ, var samþykkt sem aðildarfélag USÚ. Því eru virk aðildarfélög orðin átta talsins. Klifurfélaginu eru hér með sendar hamingjuóskir með inngönguna.
Formaður og gjaldkeri gáfu kost á sér til endurkjörs og voru endurkjörin. Kristján Örn Ebenezarson, ritari, gaf ekki kost á sér áfram og í hans stað var kosinn Jón Guðni Sigurðsson, Sindra. Varamenn gáfu kost á sér áfram. Nýja stjórn skipa því: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Jón Guðni Sigurðsson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri. Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson eru varamenn.
Pálma Guðmundssyni, fyrrverandi formanni Hestamannafélagsins Hornfirðings var veitt starfsmerki UMFÍ fyrir gott og ötult starf í þágu félagsins. Jafnframt var tilkynnt að Þorbjörg Gunnarsdóttir, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins og einnig USÚ um tíma, myndi hljóta starfsmerki, auk þess sem Bryndís Björk Hólmarsdóttir sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins á undan Pálma myndi einnig hljóta starfsmerki.
Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2019 var útnefndur á þinginu auk þess sem fimm ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ.

Íþróttamaður USÚ árið 2019 er Þorlákur Helgi Pálmason

Þorlákur Helgi Pálmason er fyrirliði meistaraflokks karla og algjör lykilmaður bæði innan vallar sem utan. Helgi, eins og hann er yfirleitt kallaður, er metnaðarfullur og hefur lagt hart að sér í gegnum árin. Þrátt fyrir erfið meiðsli að undanförnu gefur hann allt í fótboltann, hann mætir á allar æfingar og hjálpar til við allt sem þarf að gera. Hann er frábær fyrirmynd fyrir strákana í liðinu og heldur móralnum uppi. Það þyrftu allir að hafa einn Þorlák Helga í liðinu sínu.

Hvatningarverðlaun hlutu:

Freyr Sigurðsson er ungur og efnilegur strákur sem er a yngra ári í 3. flokki karla hjá Sindra. Hann er duglegur og leggur sig allan fram á æfingum. Í byrjun mars var Freyr valinn í 29 manna æfingahóp U15 ára landsliðsins. Hann stóð sig vel á æfingunum og var Sindramönnum til sóma. Freyr kom inná í æfingaleik meistaraflokks Sindra fyrir síðustu helgi og gaf leikmönnum meistaraflokks ekkert eftir þrátt fyrir ungan aldur.
Hermann Þór Ragnarsson er ungur efnilegur fótboltamaður sem er að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki karla, hann kom við sögu í nokkrum leikjum hjá meistaraflokki á seinasta tímabili þrátt fyrir ungan aldur. Hermann leggur hart ađ sér innan vallar sem utan og sýnir það að hann á fullt erindi í meistaraflokk karla.
Kjartan Jóhann R. Einarsson er mjög duglegur drengur. Hann er ávallt tilbúinn að hjálpa til međð hvaða verkefni sem er. Hann var meðal annars valinn Sindramađður ársins í fyrra fyrir metnað og dugnað í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Kjartan er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og er framtíðin björt hjá honum.
Selma Ýr Ívarsdóttir er efnileg frjálsíþróttakona sem sýnir einstakan metnað við æfingar sínar. Hún mætir á allar æfingar og tekur þátt í öllu sem viðkemur frjálsíþróttadeildinni og er afar góð fyrirmynd. Selma varð m.a. í 1. sæti í 80m grindahlaupi og 3. sæti í 800m hlaupi á Unglingalandsmótinu 2019 og ofarlega í þeim keppnisgreinum sem hún tók þátt í. Selma gat því miður ekki verið viðstödd, en Anna Björk Kristjánsdóttir, móðir Selmu, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.
Sigurður Guðni Hallsson hefur undanfarin ár verið einn af máttárstólpum í meistaraflokki Sindra í körfuknattleik þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur vaxið ár frá ári sem leikmaður og nú tvö síðastliðin ár verið valinn varnarmaður ársins hjá Sindra. Einnig er hann þekktur fyrir að gefa alltaf 110% í leikinn og vera fyrirmynd utan sem innan vallar.

Tekið af www.usu.is

Allir handhafar hvatningarverðlauna auk íþróttamanns USÚ 2019. Frá vinstri: Sigurður Guðni, Hermann Þór, Freyr, Þorlákur Helgi og Kjartan Jóhann. Á myndina vantar Selmu Ýr Ívarsdóttur. Mynd: SÓJ