Íþróttaárið 2020

0
611
Meistaraflokkur kvenna í fótbolta

Það er óhætt að segja að árið 2020 hafi verið ólíkt öllum öðrum árum á íþróttasviðinu. Við lærðum margt, við lærðum að hreinlæti skiptir máli, við lærðum að við þurfum að gera hluti til þess að tryggja öryggi og heilsu annarra þó að það hafi gengið þvert á einstaklingshagsmuni og við lærðum að umgangast fjölskylduna í meira mæli en áður. Sumir lærdómar kosta uppgjör, eins og hversu langt erum við tilbúin að ganga til þess að tryggja öryggi annarra á kostnað okkar eigin framfærslu, eða hvort við erum tilbúin að verja öllum okkar tíma með fjölskyldunni og eiga ekkert persónulegt líf þess utan, og erum við tilbúin að vera ein/n með sjálfum okkur alltaf án þess að umgangast aðra til að tryggja okkar eigið öryggi. Skoðanirnar eru væntanlega eins mismunandi og við erum mörg. Sumir vilja tryggja öryggi allra sama hvað það kostar á meðan aðrir kæra sig kollótta um hvernig hlutirnir fara en flestir eru væntanlega einhverstaðar þarna á milli. Ég held að flestir hafa þó áttað sig á því að íþróttir skipta máli. Það er til orðatiltæki, enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur, og ég held að það sé árið 2020 í hnotskurn.
Íþróttir bæta heilsu og vellíðan þeirra sem það þær stunda og íþróttaviðburðir er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Við ætlumst til þess að í íþróttum læra einstaklingar að vinna saman í hóp, við ætlumst til þess að iðkendur læri heiðarleika og fylgi reglum, í íþróttum lærum við að til þess að ná árangri þurfum við að leggja á okkur mikla vinnu og fórnir, og við lærum að gera það vel og vanda okkur við það sem við höfum metnað fyrir að gera.
Íþróttaárið byrjaði hjá Sindra með hefðbunum hætti í Körfubolta og Blaki, og almennum æfingum yngri flokka og fullorðinna í öllum greinum. Meistaraflokkar í blaki náðu að keppa á móti í janúar og var kvennaliðið efst í sínum riðli. Fljótlega fóru hinsvegar að berast fréttir af því að Covid-19 væri farið að berast út um allan heim. Samkomubann var svo sett á 16. mars og æfingar féllu niður 16.-23. mars. Þjálfarar hjá félaginu settu upp heimaæfingar og allir iðkendur fengu sendar æfingar til þess að halda áfram æfingum með breyttu sniði. Körfuboltatímabilinu var hinsvegar lokað þar sem 4 vikna samkomubann var boðað hjá fullorðnum og ekki urðu fleiri mót í blaki. Eftir tímabilið lét svo Halldór Steingrímsson af störfum sem þjálfari Meistaraflokks í Körfubolta og við liðinu tók Pedro Garcia Rosado. Knattspyrnan byrjaði svo af fullum krafti þegar fyrsta bylgjan var yfirstaðin. Æfingar í knattspyrnu fullorðinna hófust með takmörkunum 4. maí og fyrsti leikur sumarsins var í Mjólkurbikar karla þann 6. júní og Mjólkurbikar kvenna hófst 13. júní. Fyrstu leikirnir voru lokaðir fyrir áhorfendum en smátt og smátt var takmörkunum aflétt og starfið gekk vel í öllum flokkum. Þegar líða tók á sumarið fór veiran að láta á sér kræla aftur og því miður þurfti að hætta Íslandsmótinu í knattspyrnu þegar nokkrir leikir voru eftir ókláraðir og röðun liða látin standa þar sem 2/3 hlutar af tímabilinu höfðu verið spilað og KSÍ hafði sett reglugerð fyrir þá sviðsmynd. Undir lok tímabilsins sagði Ingvi Ingólfsson starfi sínu lausu og gamalkunnir þjálfarar tóku við keflinu, þeir Sindri Ragnarson og Halldór Steinar. Eftir tímabilið tók svo Óli Stefán við þjálfun meistaraflokks karla og endurnýjaður var samningur við Veselin Chilingirov um þjálfun Meistaraflokks kvenna.
Í október fór svo að síga á ógæfuhliðina þar sem íþróttastarf var takamarkað og heimaæfingar byrjuðu aftur 31. október til 17. nóvember. Eftir það var börnum og unglingum á Grunnskólaldri heimilt að halda áfram æfingum en fullorðnu fólki óheimlt að stunda hefðbundar æfingar og almenn íþróttaiðkun fullorðinna verið takmörkuð við útihlaup og heimaleikfimi. Meistaraflokkur karla í körfubolta náði einum leik á móti Hamri í Hveragerði áður en körfubolta tímabilið var stöðvað vegna nýrra bylgju af Covid 19. Vonir standa til að meistaraflokkar í körfubolta, blaki og knattspyrnu hafi fengið leyfi til að hefja æfingar þegar þessi grein verður prentuð, en unnið er að því að fá undanþágu fyrir þessa hópa.
Mótahald verður væntanlega að bíða fram yfir áramót, en það verður góð tilfining að hefja æfingar aftur hjá meistaraflokkum og framhaldskólanemum. Forvarnir íþrótta eru ótvíræð og það hefur verið staðfest með ýmsum rannsóknum bæði hér heima og erlendis. Vonandi náum við að vinna bug á þessari veiru sem fyrst og vonandi ná allir að komast í gegnum hátíðarnar án þess að fara í sóttkví.
Fyrir hönd Ungmennafélagsins Sindra vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju og vonandi Covid lausu ári.

Lárus Páll Pálsson
framkvæmdastjóri UMF. Sindra