Íslenskunám hjá Fræðslunetinu

0
640

Mikil aðsókn hefur verið á íslenskunámskeið Fræðslunetsins þessa önn sem aðrar. Fræðslunetið heldur íslenskunámskeið um allt Suðurland og í haust hafa yfir 160 útlendingar sótt íslenskunám hjá okkur. Þessa dagana er námskeiðum að ljúka og margir sem útskrifast fara beint á framhaldsnámskeið, sem er mjög æskilegt og eykur líkur á árangri. Í síðustu viku lauk 60 stunda námskeiðum hér á Höfn í íslensku 1 og 3 hjá Hlíf Gylfadóttur kennara. 14 nemendur luku íslensku 1 og 13 nemendur luku íslensku 3. Það er oft mikil áskorun fyrir erlenda íbúa að læra nýtt tungumál enda eru námsmennirnir okkar stoltir af sínum árangri og við af þeim og þá má alls ekki gleyma okkar góðu kennurum. Það getur reynst mikil áskorun að kenna stórum hópum, sem koma víða að, tala mismunandi tungumál og eru jafnvel ekki með sama ritmál og við.
Við hjá Fræðslunetinu viljum minna alla Íslendinga á hvað það er mikilvægt að tala íslensku við alla útlendinga sem eru að læra tungumálið okkar. Við sem tölum íslensku erum öll sérfræðingar í henni og getum miðlað svo miklu til þeirra sem vilja læra. Í stað þess að skipta strax yfir á ensku þá eigum við að aðstoða við íslenskuþjálfunina. Það er bæði skemmtilegt og gefur mikið í samskiptum og byggir brýr á milli nýju íbúanna og okkar hinna. Það er stór þáttur í varðveislu íslenskunnar að nýir íbúar læri tungumál samfélagsins og því viljum við hvetja alla til að gefa sér tíma til að tala íslensku við þá sem hana vilja læra.