Ice Lagoon og Körfu­knattleiksdeild Sindra skrifa undir tímamóta samstarfssamning

0
1473

Það var mikil eftirvænting í loftinu föstudaginn 15. janúar síðastliðinn þegar biðin var loks á enda, búið að kvejða þriðju bylgjuna í kútinn, samkomutakmarkanir rýmkaðar og keppnisbanni aflétt. Loksins var komið að fyrsta heimaleik Sindra í körfunni.
Það voru þó ekki einu góðu fréttirnar það kvöldið. Ingvar Geirsson eigandi og framkvæmdastjóri Ice Lagoon Adventure Tours var mættur og tilbúinn að munda pennann til að skrifa undir nýjan og endurbættan samstarfssamning við körfuknattleiksdeildina.
Körfuknattleiksdeild Sindra og Ice Lagoon skrifuðu fyrst undir samstarfssamning sín á milli árið 2018 og hefur heimavöllur Sindra borið nafn fyrirtækisins síðan, Ice Lagoon Höllin. Með nýjum samningi tekur Ice Lagoon eitt skref áfram með körfuknattleiksdeildinni og verður nú aðalstyrktaraðili deildarinnar og mun prýða framhlið búninga körfuknattleiksdeildarinnar. Nýir útivallarbúningar voru frumsýndir í leikjum liðsins um síðustu helgi á móti Selfossi og Vestra. Hvíti búningurinn verður svo frumsýndur hér í Ice Lagoon Höllinni næsta föstudag, 29. janúar á móti Skallagrími.
Samningurinn er án nokkurs vafa tímamótasamningur í sögu körfuknattleiksdeildarinnar enda stærsti einstaki samningur sem deildin hefur gert við eitt fyrirtæki. Með samningnum styður Ice Lagoon dyggilega við bakið á körfunni og gerir þeim kleift að taka skref fram á við á tímum þar sem flestir sjá illa til sólar. Samtakamáttur samfélagsins er límið í rekstri lítilla deilda út á landi. Það er vilji stjórnar og sjálfboðaliða körfunnar að reka deild sem allt bæjarfélagið getur verið stolt af og kemur Höfn á kortið sem sannkölluðum íþróttabæ. Ice Lagoon hjálpar hér deildinni í átt að þeim markmiðum og er það von okkar að samningur þessi sé öðrum fyrirtækjum í héraðinu, sem og fyrirtækjum sem bjóða hér uppá þjónustu, hvatning til að leggja sitt af mörkum!
Ingvar Geirson hafði þetta um málið að segja eftir að hafa skrifað undir samstarfssamninginn „Við hjá Ice Lagoon erum ákaflega stolt af því að vera aðalstyrktaraðili Körfuknattleiksdeildar Sindra næstu þrjú árin. Öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf eru hverju samfélagi gríðarlega mikilvægt, því er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að styrkja þetta frábæra starf í okkar heimabyggð á komandi tímum. Ég hef mikla trú á því öfluga íþrótta- og æskulýðsstarfi sem Körfuknattleiksdeild Sindra er að sinna og byggja upp, jafnframt tek ég ofan fyrir öllu því fólki sem sinnir ómældri vinnu í kringum starfið sem er samfélaginu okkar í heild svo mikilvægt, við ykkar segi ég áfram þið og áfram Sindri!“
Körfuknattleiksdeildin þakkar Ice Lagoon kærlega fyrir stuðninginn og hlakkar til til samstarfsins næstu þrjú árin.
Áfram Sindri – Áfram Ice Lagoon!