Hvítur, hvítur dagur sópar til sín verðlaunum

0
1348
Ída og Hlynur ásamt Ingvari E. Sigurðssyni, en þau unnu öll til verðlauna á Eddunni

Edduverðlaunin 2020, uppskeruhátíð íslenska sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins, voru veitt í sjónvarpsþætti þriðjudaginn 6. október. Upphaflega átti að halda hátíðina í mars en var frestað útaf kórónuveirufaraldrinum. Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur, sló í gegn og vann til 6 verðlauna, þar á meðal vann Hlynur Leikstjóri ársins og fóru verðlaunin Leikakona ársins í aukahlutverki til Ídu Mekkínar Hlynsdóttur. Eystrahorn hafði samband við feðginin og spurði þau aðeins út í verðlaunin og framtíðina.
Við byrjuðum á að spyrja Ídu út í verðlaunin.

Hvað er það skemmilegasta við að vinna svona verðlaun ?
Mér fannst gaman að fara í ferð til Reykjavíkur með pabba, ég hélt að ég væri bara að fara í viðtal en svo fékk ég allt í einu verðlaun og varð mjög hissa. Mér fannst líka gaman að koma heim og fá svona mikið hrós frá fólkinu á staðnum. Við héldum líka partý fyrir fjölskylduna heima um kvöldið þegar verðlaunaafhendingin var sýnd í sjónvarpinu.

Stefnir þú á frekari frama í leiklist þegar þú verður eldri ?
Já ég held það, pabbi er allavega búinn að bjóða mér hlutverk í nýju myndinni sinni. Mér fannst oftast gaman að leika í Hvítum degi en sumir dagar gátu verið pínu erfiðir, sérstaklega þegar ég var orðin þreytt eða kalt. Mér þótti mjög vænt um allt fólkið sem ég kynntist á tökum og ég hlakka til að hitta þau aftur í næstu tökum.

Hvar geymir þú verðlauna styttuna þína ?
Ég er reyndar ekki enn búin að fá hana, skilst að hún verði send með póstinum. Ég ætla að hafa hana í herberginu mínu. Bræður mínir eru líka búnir að panta að hafa eina Eddu inni hjá sér.

Hlynur, hvaða þýðingu hefur þessi viðurkenning fyrir þig?
Hvítur, hvítur dagur er fyrsta íslenska kvikmyndin mín í fullri lengd og er ég ótrúlega þakklátur fyrir þessar hlýju móttökur sem hún hefur fengið hérna heima frá íslensku kvikmyndagerða fólki. Það hefur einnig gengið vel alþjóðlega og hjálpar það okkur þegar kemur að því að fjármagna næstu mynd.

Sérðu fram á að vinna meira með teyminu úr Hvítum, Hvítum degi?
Við höfum flest unnið saman frá því ég var í kvikmyndaskólanum og erum við á fullu að undirbúa næsta verkefni. Þetta eru allt miklir vinir mínir og finnst mér spennandi og gott að vinna með þeim. Ég er viss um að við eigum alveg fullt eftir, þetta er rétt að byrja.

Hvað er framundan hjá þér núna ?
Ég byrjaði að skjóta verkefni með börnunum mínum í vor sem heitir “Hreiðrið”. Þetta er tvíþætt verkefni og er bæði stuttmynd sem verður tilbúin næsta sumar og vídeó innsetning sem er langtíma verkefni og verður ekki fullklárað fyrr en eftir nokkur ár. Einnig er ég að þróa sjónvarpsseríu og tvær aðra kvikmyndir sem gerist hérna á Hornafirði og nágrenni. En mesta orkan þessa dagana fer í að undirbúa þriðju kvikmyndina í fullri lengd sem heitir Volaða Land og er lang stærsta verkefnið okkar hingað til. Aðaltökurnar verða næsta sumar, en ég er búinn að vera að skjóta tvær senur úr myndinni síðustu tvö ár. Ég hlakka mikið til að halda forsýninguna hérna heima á Hornafirði sumarið 2022. Núna þurfum við bara að koma upp alvöru sal með föstum sætum sem hentar fyrir bíó, leikhús og tónleika í Sindrabæ.

Myndin fékk eftirfarandi Eddu verðlaun:

 • Kvikmyndataka ársins
  Maria von Hausswolff
 • Leikari í aðalhlutverki ársins
  Ingvar E. Sigurðsson
 • Leikkona í aukahlutverki ársins
  Ída Mekkín Hlynsdóttir
 • Leikmynd ársins
  Hulda Helgadóttir
 • Leikstjórn ársins
  Hlynur Pálmason
 • Tónlist ársins
  Edmund Finnis