Húsfyllir á bókakynningu í Svavarssafni

0
670

Síðasta föstudag klukkan fjögur var haldin bókakynning í Svavarssafni, en þá las Þórður Sævar Jónsson í fyrsta sinn opinberlega upp úr bókinni Líf og ævintýri í Kanada. Boðið var upp á léttar veitingar, flatkökur, kleinur, hvítvín og fleira, en einnig voru til sýnis útskurður eftir Guðjón í tilefni bókarinnar. Guðjón fæddist 1903, foreldrar hans héldu til Kanada en hann var skilinn eftir hjá ættingjum í Austur-Skaftafellssýslu. Um tvítugt bauð faðir hans honum til sín en Guðjón entist ekki lengi með honum heldur fór á flakk sem varði áratugi. Líf Guðjóns var sannkallað ævintýri, hann vann fyrir sér bæði sem veiðimaður og smiður, og lenti ósjaldan í lífsháska.

Þórður Sævar er Hornfirðingum vel kunnur, en um tíma var hann bókavörður á bókasafni Hornafjarðar. Meðan hann bjó hér komst hann í kynni við handrit Guðjóns, sem til eru bæði á ensku og íslensku. Hann bjó handritin til útgáfu og ritaði formála, en eftir upplestur á Svavarssafni fór hann á Hala í Suðursveit til að kynna bókina enn frekar á haustþingi Þórbergsseturs.