Humarhátíð 2018 með breyttu sniði

0
5588
Lifandi tónlist á Morávekpallinum

Humarhátíð verður að þessu sinni í höndum áhugahóps sem stóð m.a. fyrir Heimatjaldinu og Morávekpallinum á Humarhátíð 2017. Hópurinn sóttist eftir að fá tækifæri til að endurskoða og færa hátíðina yfir til okkar Hornfirðinga. Þessir viðburðir á síðastliðinni Humarhátíð heppnuðust með eindæmum vel, mikil gleði ríkti hjá íbúum sem vildu gjarnan taka þátt, mættu margir til að leggja sitt af mörkum og enn fleiri til að njóta góðs af. Mikil stemmning var á báðum stöðum og allir jákvæðir um að svona ætti Humarhátíð að vera; haldin af Hornfirðingum fyrir Hornfirðinga og gesti.
Humarhátíð 2018 var þó í upphafi í höndum Ungmennafélagsins Sindra, eins og síðustu ár, og mættu fulltrúar þessa nýskipaða hóps einir á auglýstan fund þar sem íbúar fengu tækifæri til að segja sína skoðun og deila hugmyndum um Humarhátíðina nú fyrr í vor. Við sögðum Sindra frá okkar upplifun sumarið áður, hversu vel hefði gengið að fá hornfirska listamenn til liðs við okkur og tekið var vel í allar okkar hugmyndir. Fljótlega bauð Sindri okkur að taka við skipulagningu hátíðarinnar að gefnu samþykki bæjarstjórnar og stjórnar Sindra. Málið hefur verið tekið fyrir hjá báðum aðilum og hefur hópurinn nú formlega tekið við sem Humarhátíðarnefnd 2018. Knattspyrnudeild Sindra mun þó áfram sjá um dansleik í íþróttahúsi Hafnar á laugardagskvöldi Humarhátíðar. Vonumst við til að sem flest félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar leggi sitt af mörkum til að gera Humarhátíð 2018 sem besta.

Fjölbreytt dagskrá hornfirskra tónlistarmanna var í Heimatjaldinu m.a Guggurnar
Fjölbreytt dagskrá hornfirskra tónlistarmanna var í Heimatjaldinu m.a Guggurnar

Humarhátíðarnefnd 2018 skipa: Emil Morávek, Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir, Heiðar Sigurðsson, Jónína Kristín Ágústsdóttir, Júlíus Sigfússon, Kristín Gestsdóttir, Kristín Vala Þrastardóttir, Kristjón Elvarsson, Steinunn Hödd Harðardóttir, Tjörvi Óskarsson og Vilhjálmur Magnússon
Við viljum leggja áherslu á að dagskrá verði í boði við allra hæfi og að heimamenn fái að njóta sín.
Vilt þú vera með skemmtiatriði, viðburð eða sölubás?
Áhugasamir eru hvattir taka þátt á einn eða annan hátt. Hafið samband á humarhatidarnefnd@gmail.com og leyfið okkur að heyra ykkar hugmyndir.

Fylgstu með á facebook undir hópnum “Humarhátíð í Hornafirði 2018“ og taktu dagana frá 29. júní – 1. júlí 2018.

Humarhátíðarnefnd 2018