Hugleiðing í aðdraganda kosninga

0
715

Það hefur alltaf verið ljóst í mínum huga, að samfélagið samanstendur af einstaklingum, en ef einstaklingarnir hugsa bara um sjálfa sig þá er illt í efni. Píratahjartað slær hratt þessa dagana. Núna er ástæða til að hafa hátt, vera með læti og heimta lýðræði – ekkert kjaftæði. Það verða Alþingiskosningar 25. september.

Það er gott að búa á Höfn í Hornafirði, ómæld fegurð og lífsgæðin blasa við alla daga. Ég er búin að búa hér í þrjú ár og þau hafa liðið hratt. Það seitlar þó inn með tímanum að það er lengra til Hafnar en Reykjavíkur. Líklega er réttara að segja fegurðin og lífsgæðin hér séu einskorðuð við það sem liggur í eðli hlutanna. Tvær mínútur að ganga í vinnuna og mikil náttúra sem létt er að nýta sér til útivistar. Við búum líka svo vel að hér er starfræktur öflugur framhaldsskóli og rannsóknarsetur Háskóla Íslands. Hin hliðin á þessari dýrð er að það eru mörg kolefnisspor í alla þjónustu eins og t.d. heilbrigðisþjónustu, sérstaka menntun eins og iðn- og háskólamenntun og ekki nema ein matvöruverslun.

Raunverulegt lýðræði
Píratar leggja áherslu á lýðræði í víðu samhengi. Ef fólk hefur ekki svigrúm til þess að taka þátt í samfélaginu, hvort sem það er fjárhagslegt eða vegna tímaskorts, þá er ekki hægt að tala um raunverulegt lýðræði. Áhersla á fólk – hugmyndir þess, velferð og valdeflingu – það er alvöru lýðræði.

Þess vegna á heilbrigðisþjónusta og menntun að vera óháð búsetu að mati Pírata. Velferð manneskjunnar og réttindi notenda eiga að vera forgangsmál. Píratar vilja heilbrigðis- og menntakerfi með aðgengi að fjölbreyttri hágæða þjónustu þar sem réttindi notenda eru í forgangi. Fordómalaus þjónusta sem byggir á mannúð og nærgætni.

Í mínum huga er er geðheilbrigði eitt af stóru heilbrigðismálunum. En þegar talað er geðheilbrigði er ekki eingöngu verið að ræða hvernig við komum fram við veikt fólk heldur líka hvernig hlúum við að fólki almennt til þess að það verði ekki veikt, hvorki andlega eða líkamlega. Þess vegna eru forvarnir Pírötum svo mikið hjartans mál.


Framtíðin fyrir næstu kynslóðir
Píratar eru staðráðnir í að skapa framtíðina með það fyrir augum að nýta þau tækifæri sem skapast hafa í kjölfar heimsfaraldursins, að nýta sjálfvirknivæðingu til góðs og fjárfesta í grænum samfélagsvænum hugmyndum sem auðga velsæld og auka hagsæld fyrir sem flesta.

Inntak sjálfbærnihugtaksins hefur breyst töluvert síðan það kom fyrst fram. Áður en farið var að nota sjálfbærni sem hugtak þá var reglan að hagræn sjónarmið réðu ferðinni, að hagsmunir samfélags og náttúru yrðu að víkja. Það eru orðin rétt tæp 40 ár síðan að sjálfbærni hugtakið fær skilgreininguna: „Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum“. Það er því pínulítið ógnvekjandi að hlusta á kappræður í sjónvarpi þar sem formenn flokka eins og t.d. Framsóknarflokksins halda fram þessu sjónarmiði sem einhverri glænýrri umhverfisstefnu. Framkoma okkar við móður jörð hefur ekki verið grundvölluð af sjálfbærni og því viljum við Píratar breyta. Raunverulegt lýðræði þarf að vera leiðarljós í baráttunni við loftslagsbreytingar, við veltum ábyrgðinni yfir á mengandi stórfyrirtæki og auðveldum venjulegu fólki að vera með í baráttunni með því að gera grænt ódýrt en skítugt dýrt.

Það er eindregin krafa okkar að sjálfbærni sé höfð sem mælistika fyrir nýtingu allra auðlinda náttúrunnar og sé rammi fyrir alla stefnumótun. Við erum að fylgjast með hruni auðhyggjunnar í beinni. Það getur ekkert þanist út endalaust án þess að springa. Við verðum að vernda náttúruna fyrir ágangi og sjálfbærni þarf að vera grundvöllurinn þegar við sköpum lausnir framtíðarinnar i atvinnumálum. Það er ekki lengur hægt að sitja hjá. Við þurfum lýðræði – ekkert kjaftæði.

Því hvet ég alla kjósendur til að nýta sinn lýðræðislega rétt til þess að ganga til kosninga 25. september eða kjósa utan kjörstaðar ef það hentar betur. Ég vil jafnframt hvetja ykkur til að kynna ykkur kosningastefnuskrá Pírata, þar sem lýðræðið er sem rauður þráður í gegnum alla 24. kaflana. Píratar beita sér meðal annars fyrir gagnsæi, ópólitískri og óháðri vísindalegri ráðgjöf, sjálfbærni og nýsköpun um allt land ásamt því að berjast gegn spillingu.

Lind Völundardóttir 2. sæti Píratar suðurkjördæmi