Hreyfing í föstum formum og litum

0
280
Þessi vatnslitamynd verður meðal þeirra sem verður til sýnis á Hreyfingu í föstum formum.

Sumarsýning Svavarssafns opnar föstudaginn 24. júní klukkan þrjú, á Humarhátíð. Eins og oft á sumrin er sjónum beint að verkum Svavars Guðnasonar, að þessu sinni hefur sýningarstjórinn Jón Proppé valið myndir sem sýna vel hreyfingu og litagleði abstraktverka Svavars. Jón þekkir vel til verka Svavars og var sýningarstjóri sumarsýningarinnar í fyrra þegar verk Svavars og Erlu Þórarinsdóttur var spyrnt saman.
Á opnuninni verður boðið upp á veitingar, en daginn eftir, klukkan tvö, mun sýningarstjórinn leiða gesti um sýninguna.
„Málverk Svavars og pastelmyndir vöktu mikla athygli annarra listamanna og gagnrýnenda, “ segir Jón Proppé.
„Framlag Svavars til hreinflatar- abstraktsins sannaði fyrir mörgum að stefnan gæti getið af sér falleg og þróttmikil listaverk. Það hafa líklega fáir þorað að kalla Svavar klessumálara þótt verk hans væru nýstárleg. Það sem fólk var sammála um, meðal annarra Kjarval og Björn Th. Björnsson, var að náttúran væri enn helsti innblástur Svavars þótt formin væru mörkuð hreinum línum.“

Sýningin mun standa til 11. september.