Hornafjörður Náttúrulega

0
1328

Hornafjörður náttúrulega!

Þegar ég hóf störf hjá sveitarfélaginu síðasta sumar sá ég nýlega stefnu sem kallast Hornafjörður náttúrulega. Um er að ræða heildarstefnu fyrir sveitarfélagið til næstu fimm ára. Þessi vandaða stefna byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og var hún fyrst kynnt í  september 2021.

Að móta stefnu er auðvelt – í innleiðingunni fara hlutirnir úrskeiðis

Að móta stefnu er eitt, en að innleiða stefnu og breyta eftir henni getur hins vegar verið mikil áskorun. Rannsóknir sýna að aðeins litlum hluta þeirra fyrirtækja og stofnana sem ráðast í stefnumótun tekst að innleiða stefnu í kjölfar stefnumótunarvinnunnar. Oftar en ekki enda þessar stefnur ofan í skúffu. Það má ekki gerast með Hornafjörður náttúrulega!

Innleiðing Hornafjörður náttúrulega

Til að virkja þessa heildarstefnu höfum við sett af stað mikilvægt verkefni sem felur í sér innleiðingu stefnunnar í allt starf okkar stofnana. Þannig munum við vinna markvisst að því að breyta okkar hegðun til samræmis við gildi og áherslur Hornafjörður náttúrulega. Þegar hafa verið haldnir fundir með öllum forstöðumönnum stofnana þar sem stefnan og innleiðingaráætlun hennar var til umræðu. Einnig eru farnir af stað kynningarfundir með öllu starfsfólki sveitarfélagsins. Þá verða vinnustofur með fulltrúum stofnana þar sem við förum yfir markmið stefnunnar og fáum fram hugmyndir starfsfólks um aðgerðir og mælikvarða.

Fjórir átaksmánuðir byggðir á megináherslum

Hornafjörður náttúrulega byggir á fjórum megin áherslum:

  • Að vera leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum
  • Að stjórnsýslan sé bæði gegnsæ og aðgengileg
  • Að hér sé blómlegt atvinnulíf
  • Að vera fjölskylduvænt samfélag

Í innleiðingarferlinu munum við tileinka hverri áherslu einn mánuð ársins – svokallaðan átaksmánuð. Apríl verður tileinkaður umhverfis- og loftslagsmálum, maí síðan aðgengilegri og gagnsærri stjórnsýslu og loks október og nóvember hinum tveimur. Í þessum átaksmánuðum mun hver stofnun fyrir sig vinna að fyrir fram skilgreindum aðgerðum og markmiðum sem þau hafa komið sér saman um og tengjast áherslunni hverju sinni.

Er þetta ekki bara enn ein stefnan?

Hornafjörður náttúrulega er heildarstefna sveitarfélagsins okkar og tekur til allrar starfseminnar. Stefnan er yfir alla flokkadrætti og pólitík hafin. Stefnan snýst einfaldlega um að sveitarfélagið okkar verði enn eftirsóknarverðari búsetukostur og staður sem fólk vill sækja heim í auknum mæli. Staður þar sem mannlíf og lífsgæði blómstra í sátt og samlyndi við umhverfi og náttúru. Staður þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og þjónusta er framúrskarandi og menning er lifandi.

Þetta er ekki áhlaup heldur langhlaup

Það getur verið varasamt að ætla sér að fara of bratt í innleiðingu þar sem óskað er eftir nýrri hugsun og hegðun starfsfólks. Þess vegna munum við búta vinnuna niður og gera okkar allra besta til að allir geti fundið sig í verkefninu. Allt frá bæjarstjórn og út í stofnanirnar og skólana,

ráðhúsið og höfnina – allir taka þátt og eiga að finna sinn stað í verkefninu. Við erum að leggja af stað í langferð en ekki stuttan sprett.

Verkefnastjórn og upplýsingagjöf

Við höfum fengið til liðs við okkur einvalalið frá Nýheimum þekkingarsetri og munu þau halda að stórum hluta utan um skipulag verkefnisins og upplýsingagjöf. En það er mikilvægt engu að síður að muna að það eru stjórnendur sveitarfélagsins og ekki síst ég sjálfur sem er eigandi verkefnisins og það mun reyna mikið á okkur í innleiðingarferlinu.

Á þetta erindi við mig?

Hornafjörður náttúrulega á að okkar mati erindi við allt sveitarfélagið. Í þessu sambandi munum við segja reglulega fréttir af innleiðingarferlinu og þeim árangri sem við náum saman. Ef fólk vill fá meiri upplýsingar um Hornafjörður náttúrulega þá má finna stefnuna á vef sveitarfélagsins og fljótlega munum við opna þar upplýsingasvæði um verkefnið, slóðin verður www.hornafjordur.is/natturulega. Þar munu helstu upplýsingar verða gerðar öllum aðgengilegar.

Stefnumótun og innleiðing í sinni einföldustu mynd

Stundum vex stefnumótun og innleiðing stefnu fólki í augum. Í sinni einföldustu mynd má segja að við séum einfaldlega að ákveða hvert við viljum fara og hvernig á að komast þangað. Svo verða eðli málsins samkvæmt hindranir í veginum en saman ryðjum við þeim úr vegi og höldum ótrauð áfram.

Tökum höndum saman um enn betri Hornafjörð

Með verkefninu Hornafjörður náttúrulega ætlum við að virkja allt starfsfólk sveitarfélagsins. Virkja verðmætan mannauð okkar til að taka höndum saman og bæta samvinnu og samstöðu. Með jákvæðni og hugrekki að leiðarljósi er ég alveg sannfærður um að okkur mun takast vel til.

Áfram Hornafjörður!

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri