Hjólböruganga til styrktar Krabbameinsfélaginu

0
1100
Huginn með hjólbörurnar og hauskúpuna af hreindýrinu

Hugi Garðarsson er 21 ára göngugarpur sem gengur nú hringinn í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélaginu og til minningar um ömmu sína sem lést úr krabbameini. Síðastliðin þriðjudag var hann staddur á Höfn eftir að hafa byrjað gönguna á Þingvöllum fyrir 59 dögum og lagt að baki rúmlega 2000 km. Markmiðið er að heimsækja 70 bæi á leiðinni og var Höfn 52. í röðinni. Hann gengur um það bil 35-50 km á dag en gekk lengst 100 km á milli Bíldudals og Þingeyrar og tók gangan í heild 37 klukkutíma.
“Fyrir um 2 árum ákvað ég að ferðast þjóðveg 1 og byrjaði að fara Suðurlandið og svo norður fyrir. Þegar ég kom til Akureyrar ákvað ég að kaupa mér hjólbörur til að létta gönguna.“ Huginn gekk svo alla leið til Reykjavíkur á 8 dögum með farangurinn í hjólbörunum. Það var þá sem þessi hugmynd kviknaði og hefur hann síðustu 2 ár verið að skipuleggja þessa göngu. Hjólbörurnar hafa þróast töluvert á þessari leið, tveimur hjólum hefur verið bætt við og þverslá bætt við handföngin og þau lengd svo að gangan reyni ekki um of á axlir og bak. Hugin er með tjald, nóg af vatni og annað nauðsynlegt í hjólbörunum en einnig hauskúpu af hreindýri, þegar hann er spurður út í hana sagði hann “Ég fann hana fyrir tveimur árum út í móa þegar ég gekk þjóðveginn en skildi hana eftir. Ég ákvað að athuga núna hvort hún væri þarna enn og þar var hún og því tók ég hana með í þetta skiptið.”
Á miðvikudag lagði Hugi aftur af stað eftir sólarhrings dvöl á Höfn, hann var búinn að fá gistingu á leiðinni að Skaftafells en gerði ráð fyrir að þurfa að gista út í móa milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur. “Ég hef nokkrum sinnum þurft að gista út í móa en alls ekki oft.” Við óskum þessum unga manni góðrar ferðar það sem eftir er en hann gerir ráð fyrir að klára gönguna í lok ágúst byrjun september á Þingvöllum. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á facebook síðu Huga, 70 bæja hjólbörugangan.

Þeir sem vilja styrkja Krabbameins­félagið er bent á símanúmerið 908-1001 til að styrkja um 1000 kr.
Einnig er hægt að millifæra inn á styrktarreikning Krabbameinsfélagsins
0301-26-005035 kt: 700169-2789