Heimsflugið 1924

0
991

Á Óslandshæðinni á Höfn blasir við látlaus steindrangur. Minnisvarði um merkan atburð. Áletrun á minnisvarðanum er eftirfarandi: „Erik H. Nelson flaug fyrstur til Íslands 2. ágúst 1924.“

Það voru Bandaríkjamenn sem stofnuðu til heimsflugsins. Gert var ráð fyrir að flugvélarnar flygju yfir 22 þjóðlönd. Flugvélarnar fjórar, sem nefndust Seattle, Chicago, New Orleans og Boston, lögðu af stað frá Seattle í Bandaríkjunum þann 6. apríl 1924. Vélarnar voru af gerðinni Douglas, 12 metra langar með 16 metra vænghaf og vógu rúm fjögur tonn fulllestaðar, segir í heimildum. Fyrst var flogið í átt til Alaska. Þar henti forystuflugvélina „Seattle“ mikið óhapp. Hún rakst á fjall og fórst, en flugmennirnir björguðust.

Hinar þrjár vélarnar héldu förinni áfram. Eftir að hafa flogið um Japan, Kína, Indland og meginland Evrópu komu þær til Bretlands í endaðan júlí. Að morgni 2.ágúst lögðu þær af stað til Íslands. Skammt frá Orkneyjum skall þoka yfir og treystu tveir flugmannanna sér ekki til að halda áfram og sneru við. Þriðja vélin „New Orleans“, sem Svíinn Erik H. Nelson, stýrði, hélt áfram og lenti heilu og höldnu á Hornafirði eftir 8 ½ klst flug. Auk flugmannsins var flugvélstjóri, John Harding jr.

Á Hornafirði var mikill viðbúnaður. Fyrri part sumars kom einn af umsjónarmönnum hnattflugsins, C.E. Crumrine, liðsforingi úr bandaríska flughernum, til Hafnar til að annast undirbúning lendingar þar. Björn Eymundsson, lóðs Hornfirðinga var fenginn til að mæla út lendingarsvæðið, sem var Mikleyjaráll rétt utan við sjóhúsin í Mikley. Á húsið var málað með stórum stöfum „Welcome-Hornafjörður“. Í bók Önnu Þórhallsdóttur, „Brautryðjendur á Hornafirði“, sem út kom árið 1972, birtir hún útvarpserindi, sem hún flutti í árslok 1969 og segir þar á eftirminnilegan hátt frá þessum atburði.

Árið 1954, þegar 30 ár voru liðin, var atburðarins minnst. Flugfélag Íslands bauð Erik H. Nelson til Íslands undir forystu flugmálastjóra, Agnars Kofoed-Hansen og Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings. Þann 2. ágúst 1954 var haldið til Hornafjarðar og með í för var Ingólfur Jónsson, samgönguráðherra. Flugmálastjórn hafði látið reisa minnismerki um atburðinn 1924 og var það afhjúpað við flugvöllinn á Melatanga við hátíðlega athöfn. Þessi minnisvarði er nú á Óslandshæðinni eins og vitnað er til hér í byrjun.

Í ágúst 1994, þegar sjötíu ár voru liðin frá heimsfluginu, hafði Bæjarstjórn Hornafjarðar forgöngu um að afhjúpað var listaverk við Árnanesflugvöll í tilefni afmælisins. Verkið er eftir Pétur Sigurbjörnsson, vélsmið á Höfn, en stækkað í Vélsmiðju Hornafjarðar.

Flugvélarnar tvær, sem sneru við til Orkneyja 2. ágúst héldu áfram för sinni næsta dag. Önnur þeirra, „Boston“, neyddist til að nauðlenda á sjónum, en áhöfninni var bjargað af breskum togara, en hin vélin „Chicago“ náði til Hornafjarðar. Þann 5. ágúst 1924 héldu vélarnar tvær áfram flugi sínu til Reykjavíkur. Heimsfluginu lauk svo þann 28. september 1924 á sama stað og það hófst, þ.e. í Seattle í Bandaríkjunum. Í Nova Scotia bættist þriðja vélin „Boston II“ í hópinn og voru vélarnar því þrjár sem luku fluginu í Seattle. Í Magnusson´s Park í Seattle hefur verið reist minnismerki um atburðinn.

Framangreint er hér rifjað upp í tilefni þess, að á næsta ári -2. ágúst 2024-er ein öld liðin frá heimsfluginu.

Vart leikur neinn vafi á því hve merkur atburður þetta var fyrir samgöngur í heiminum. Þetta var líka upphaf þess samgöngumáta Íslendinga og erlendra ferðamanna, sem mest er notaður í samskiptum Íslands við umheiminn. Ekki þarf heldur að fara í grafgötur með hve mikilvægar flugsamgöngur hafa verið fyrir Hornafjörð ekki síst áður en samgöngur á landi komust í það horf sem varð við opnun hringvegarins árið 1974.

Vonandi hafa forystufólk Sveitarfélagsins Hornafjarðar ásamt samgönguyfirvöldum á Íslandi frumkvæði að því að þessa merka atburðar verði minnst með viðeigandi hætti á aldarafmæli heimsflugsins árið 2024.

-Hermann Hansson