Guðný Árnadóttir fótboltakona

0
1304
Guðný lék sinn fyrsta leik með Napolí nú í desember

Guðný er ein fremsta fótboltakona landsins og skrifaði nýverið undir samning við kvennalið AC Milan og verður í láni til Napolí út þetta tímabil. Eystrahorn heyrði í henni til að fá örlitla innsýn í lífið og fótboltaferilinn og upphafið á Höfn.

Getur þú sagt aðeins frá sjálfri þér ?

Ég heiti Guðný Árnadóttir og er tvítug fótboltastelpa frá Hornafirði. Ég er fædd og uppalin á Hornafirði til 13 ára aldurs og flutti þá ásamt fjölskyldunni í tæp tvö ár til Víkur í Mýrdal áður en við komum okkur svo fyrir í Hafnarfirði. Foreldrar mínir eru Árni Rúnar Þorvaldsson, Hafnfirðingur og eitt sinn varnarmaður í liði Sindra og Ragnhildur Einarsdóttir frjálsíþrótta- og blakkona frá Hornafirði. Systkini mín eru Einar Karl Árnason núverandi leikmaður meistaraflokks Sindra og Sólborg Árnadóttir, 8 ára mikill FH-ingur enda lítið búið á Hornafirði.

Hvernig var æskan á Höfn og hvernig þú byrjaðir í
fótboltanum ?

Í byrjun vildi ég nú alls ekki fara á fótboltaæfingu en mamma gerði samning við mig um að ég þyrfti að mæta á 20 æfingar og þá fengi ég playmo hús, við bjuggum til skriflegan samning og allt sem var hengdur á ísskápinn þannig að ég gat merkt við eftir hverja æfingu. Mjög fljótlega var ég alveg hætt að spá í samninginn af því að mér fannst svo svakalega gaman á æfingum og var í fótbolta í flestum frímínútum í skólanum og missti helst ekki úr æfingu.
Það að alast upp í svona litlu bæjarfélagi hefur marga kosti og ég á ekkert nema góðar minningar frá Hornafirði. Einn af kostunum var að ég gat æft margar íþróttir meðfram fótboltanum eins og fimleika, blak og frjálsar íþróttir en fótboltinn var alltaf númer eitt hjá mér.

Lið Sindra, sigurvegarar Íslandsmóts í 7 manna bolta 2012. Guðný er neðst tv.

Varstu alltaf ákveðin að stefna á atvinnumennsku í fótbolta ?

Ég get nú ekki sagt það þar sem ég vissi kannski ekki af þeim möguleika fyrr en um 13-14 ára aldur. En þegar ég byrjaði að fá tækifæri með yngri landsliðunum þá vaknaði þessi draumur um að fara í atvinnumennsku og mínar helstu fyrirmyndir í boltanum þá voru í atvinnumennsku. Ég hins vegar hef alltaf verið með mikið keppnisskap og langað til að bæta mig og með hverjum áfanganum sem ég næ þá langar mig lengra og nú er ég komin hingað til Napolí og fer svo til Mílanó næsta haust.

Hvernig er að keppa fyrir hönd þjóðarinnar með landsliðinu ?

Það er alltaf mikill heiður að fá að spila fyrir Ísland og á ég margar góðar minningar frá því. Það sem stendur helst upp úr eru fyrstu landsleikirnir. Bæði fyrsti leikur fyrir yngri landsliðin og svo fyrsti leikurinn með A-landsliðinu. Ég spilaði minn fyrsta landsleik fyrir U17 ára landsliðið á lokakeppni EM U17 sumarið 2015 á móti mjög sterku liði Þýskalands. Sá leikur var spilaður í Grindavík fyrir framan fulla stúku af Íslendingum. Svo var líka mjög góð tilfinning að spila fyrsta A landsleikinn. Það var æfingaleikur við Noreg á Pinatar árið 2018. En minn eftirminnilegasti landsleikur var á síðasta ári þegar ég spilaði við Frakkland og fékk að spreyta mig á móti bestu fótboltakonum heims. Ég hef spilað 40 landsleiki með yngri landsliðum U17 og U19 og 8 leiki fyrir A landsliðið.

Geturðu sagt aðeins frá árangri þínum með íslenskum
félagsliðum ?

Guðný var valin besti leikmaður FH árið 2017

Þetta byrjað allt fyrir austan með Sindra þegar við unnum Íslandsmótið í 7 manna bolta í 4. flokki árið 2012. Við unnum úrslitakeppnina örugglega og hún var haldin á Höfn. Fyrir tímabilið 2014 kom ég svo til FH og það sumar urðum við Íslandsmeistarar og unnum alla okkar leiki. Úrslitaleikurinn var sérlega eftirminnilegur því ég skoraði fyrra mark FH í leiknum. Næstu tvö unnum við bikarkeppnina í 3. flokki FH. Árið 2015 var einnig mitt fyrsta tímabil í meistaraflokki FH og komumst við uppúr 1.deildinni í Pepsí deildina. Árin þar á eftir 2016, 2017 og 2018 spilaði ég með FH í efstu deild. Okkur tókst að ná besta árangri FH í 10 liða efstu deild árið 2017 þegar við höfnuðum í 6. sæti og slógum stigamet liðsins. Tímabilið 2018 gekk ekki nógu vel og það endaði með því að við féllum í 1. deildina. Þá fannst mér vera kominn tímapunktur á að prófa eitthvað nýtt. Valur sýndi mér áhuga og fannst mér klúbburinn mjög flottur og leikmannahópurinn góður svo ég ákvað fljótlega að ganga til liðs við þær. Fyrsta tímabilið mitt á Hlíðarenda var frábært og urðum við Íslandsmeistarar. Svo núna síðast tímabilið 2020 þá enduðum við í 2.sæti eftir að mótið var flautað af vegna Kórónuveirufaraldursins.

Hvernig kom það til að AC Milan hafði áhuga á að fá þig í sínar raðir ?

Ég var ákveðin að reyna fyrir mér í atvinnumennsku eftir sumarið hér heima og náði sambandi við umboðsmann sem hefur verið með erlenda leikmenn á Íslandi og einnig einhverja íslenska leikmenn erlendis. Hann hafði samband við mig og fann strax áhuga hjá nokkrum liðum. En um leið og það var möguleiki að skrifa undir hjá AC Milan þá fannst mér það aldrei vera nokkur spurning. Það sem mér finnst aðlaðandi við AC Milan er að þar eru sömu eigendur að karla- og kvennaliðinu og það er mjög ánægjulegt að stórliðin í Evrópu virðast vera að vakna til lífsins með kvennaboltann. Hjá AC Milan er verið að byggja upp til framtíðar og maður sér að það er mikill metnaður í starfinu þar. Þar er verið að byggja upp lið sem ætlar sér að komast í Meistaradeildina og vera meðal þeirra bestu í heimi. Það er bara ánægjulegt að svona stórt félag hafi áhuga á að fá mig til liðs við sig.

Hvaða tilfinningu hefurðu gagnvart því að spila á Ítalíu ?

Ég held að það sé gott fyrir mig að koma til Ítalíu á þessum tímapunkti, spreyta mig á stærra sviði og ég hef góða tilfinningu fyrir því. Það er áskorun en mjög spennandi að aðlaga mig að breyttu umhverfi og læra nýtt tungumál. Ég skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við AC Milan og inní samningnum var að ég færi á lán til Napoli út þetta tímabil sem nær fram í maí á næsta ári. Ég kom hingað til Napolí í nóvember og hef verið að aðlagast liðinu og umhverfi þess. Það er mikilvægt að læra ítölsku og er ég þegar byrjuð á námskeiði og komin með orðalista yfir orð úr boltanum.
Fyrstu dagar mínir hér hafa heldur betur verið viðburðarríkir, liðið er í neðsta sæti í Serie A og hefur átt erfitt uppdráttar. Ég spilaði minn fyrsta leik núna í desember sem við töpuðum og daginn eftir var þjálfarinn rekinn. Stelpurnar hérna eru mjög tæknilega sterkar og snöggar og því verður þetta góð reynsla fyrir mig og klárlega tækifæri til að bæta mig.

Eitthvað að lokum

Ég vil hvetja alla krakka á Hornafirði til þess að elta drauma sína í íþróttum en til þess að ná langt þarf að mæta vel á æfingar, hlusta á þjálfarann og æfa sig svo aukalega því það skilar sér. +

Áfram Sindri !