Grænt og vænt í matinn

0
590

Í rúm þrjú ár hef ég að mestu leyti neytt matar sem á uppruna sinn í plönturíkinu og var beðin um að skrifa hér pistil um mína reynslu. Á ensku er oft talað um “whole-food plant-based diet” en ég hef ekki fundið neitt nógu lipurt orðtak yfir það á okkar ylhýra. Í draumalífi myndi ég helst vilja borða hreinar afurðir upprunnar úr plönturíkinu. Það væru þá fæðuflokkarnir grænmeti, ávextir, kornvörur, baunir, hnetur og fræ. En ég er langt frá því að vera fullkomin, elska súkkulaði, en legg mig fram að borða fjölbreytta og hreina plöntufæðu. Það er grunnurinn. Áskoranir við neyslu matar eru nefnilega svo miklar í umhverfi okkar í dag. Aldrei fyrr hefur okkur staðið til boða jafn mikið af orkumiklum en næringarsnauðum mat. Það á jafnt við um dýra- og plöntuafurðir. Ég gæti allan daginn sagst vera plöntuæta, en eingöngu borðað unnar afurðir (t.d. sykurbætta vegan jógúrt, vel brasaðan vegan hamborgara með majonesi (vegan) og frönskum, o.s.frv). En af hverju eingöngu plöntufæði? Ég horfi á þetta út frá þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um jákvæð áhrif á heilsufar mitt og sem eitt af mínum skrefum í umhverfismálum. Í daglegu tali er alltaf verið að hvetja okkur til meiri neyslu á grænmeti og ávöxtum og hví þá ekki bara að fara alla leið?
Ég hef mikið fylgst með bandarískum lækni, Dr. Greger, sem hefur m.a. gefið út bókina “How not to die” og heldur úti vefsíðunni www.nutrionfacts.org. Dr. Greger byggir allar sínar upplýsingar á því að skoða hinar ýmsu rannsóknir sem sýna fram á tengsl mataræðis og heilsu. Varðandi umhverfismálin þá finnst mér t.d. ein góð ástæða fyrir að borða sem mest úr plönturíkinu sú að þá er engin orka eða auðlindir sem fara í millistigið við að búa til fæðu fyrir dýr sem ég myndi síðan neyta. En ég bý líka við þau forréttindi að hafa mikið val um hvaða matar ég neyti í þeim heimi sem ég bý í dag.
Úr plönturíkinu fæ ég öll þau næringarefni sem ég þarf til að leggja grunn að líkamlegri og andlegri heilsu. Við vitum síðan líka að það eru fleiri þættir sem stuðla að jákvæðri heilsu, m.a. hreyfing, svefn og jákvætt viðmót. Eina viðbót næringarefna sem ég tek er D-vítamín (eins og reyndar flestir Íslendingar þurfa að gera), B-12 vítamín (finnst í dýraafurðum, en það er upprunlega komið úr bakteríum í jarðvegi og fer þaðan í dýrin sem borða gras/plöntur) og svo borða ég reglulega söl til að fá joð. Önnur vítamín og steinefni, og önnur jákvæð efni úr plöntum eins og andoxunarefni, ætti ég að fá úr plöntufæðinu, sé ég meðvituð um að borða fjölbreytt. Kolvetni, fitu og prótein er að finna í plöntuafurðum. Hnetur og fræ innihalda t.d. mikið af fitu. Prótein eru í einhverju magni í flestum plöntuafurðum og góðir próteingjafar eru t.d. baunir, linsur og tófu. Almennt tala næringarfræðingar fyrir því að við (sérstaklega á Íslandi) búum ekki við próteinskort. Markaðsfræðin hafa aðeins farið offari í því að beina prótein vörum að neytendum. En ef einhver spyr hvaðan plöntuæta fær prótein, þá er stundum gaman að spyrja til baka: Hvaðan fær górillan eða fíllinn sín prótein?
Ég leik mér stundum að því að telja tegundir plantna sem ég er með á diskinum mínum og það er gaman þegar ég næ að komast yfir 10 tegundir. Þá veit ég líka að ég er að fá inn fjölbreyttar trefjar, því trefjar eru ekki bara trefjar. Hver og ein planta hefur ákveðna gerð af trefjum. Í þörmum okkar eru svo bakteríur sem vinna úr þessum trefjum. Því fjölbreyttari trefjar sem við neytum, því fjölbreyttari umhverfi sköpum við í þörmunum fyrir fjölbreyttar, jákvæðar bakteríur sem stuðla að svo ótrúlega mörgu jákvæðu fyrir heilsu okkar.
Fyrsta stigið í ónæmiskerfi okkar er t.d. í gegnum þarmana. Dæmi um 10 tegundir í hádegismat hjá mér gætu verið: Spínat, ferskt rauðkál, bakaðar sætar kartöflur, edame baunir, laukur, paprika, bakað brokkolí, tómatar, kóríander og graskersfræ.
Þau sem mig þekkja vita að ég er virk manneskja og hreyfi mig reglulega. Að meðaltali næ ég um 5 klst í hverri viku í einhvers konar hreyfingu (hlaup, styrktaræfingar, jóga, sund, ganga) en fer alveg upp í 10 klst/viku í góðum vikum. Eftir að ég breytti alveg yfir í plöntufæðu hef ég ekki fundið mun á orkustiginu hjá mér. Ég fór einnig í mælingar hjá fyrirtækinu í Green fit síðasta sumar og þar komu öll þau próf sem þar eru gerð mjög vel út, eins og mælingar á kólesteróli, D-vítamíni og járni. Ég sem virk kona með áhuga á mörgu þarf meira að horfa á verkefnin mín og hversu mörgum boltum ég held á hendi hverju sinni og gæta að því að fá ætíð hvíld og góða endurheimt milli verka.
Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að viðhalda góðri heilsu. Mataræði skiptir þar miklu máli og þar hef ég valið að fara á plöntuvagninn út frá þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér. Hvert og eitt okkar verður að finna sína leið en ég get alla vega sagt út frá minni reynslu að grænkeralífið er grænt og gott!
-Helga Árnadóttir