Golfklúbbur Hornafjarðar – Uppbygging og Íslandsmót

0
786
Frá vinstri: Óli Kristján Benediktsson, Steinar Kristjánsson, Halldór Sævar Birgisson (fyrirliði), Héðinn Sigurðsson, Stefán Viðar Sigtryggsson, Jón Guðni Sigurðsson og Sindri Ragnarsson

Mikill metnaður hefur verið innan Golfklúbbs Hornafjarðar (GHH) síðustu ár og hefur klúbburinn lagt mikla vinnu í að gera völlinn okkar Silfurnesvöll eins flottan og mögulegt er. Einnig hefur verið lagt mikið púður í barna- og unglingastarf sem félagið er mjög stolt af og ætlar sér að gera enn betur á næstu árum
Einn þáttur í því að gera golfið hér á Höfn spennandi fyrir alla aldurshópa er að senda lið fyrir hönd GHH í Íslandsmót. Í ár spilaði GHH í 5.deild þar sem langt var síðan að félagið hafi sent lið í Íslandsmót. Þeir Halldór Sævar Birgisson (fyrirliði), Héðinn Sigurðsson, Stefán Viðar Sigtryggsson, Steinar Kristjánsson, Óli Kristján Benediktsson, Jón Guðni Sigurðsson og Sindri Ragnarsson (liðstjóri) báru merki félagsins á bringu þetta árið.
Mótið fór fram í Sandgerði dagana 13. – 15. ágúst, tók þrjá daga og voru spilaðar 18 til 36 holur á dag í tvímenning og fjórmenning í holukeppni. Leikar byrjuðu snemma á föstudagsmorgni þar sem GHH tók á móti heimamönnum frá Sandgerði. Leikurinn var gríðarlega spennandi og réðust úrslit á síðasta pútti á síðustu holu sem féll ekki með GHH, enduðu leikar því 2-1 fyrir heimamönnum. Á laugardaginn voru spilaðir tveir leikir eða 36 holur. GHH byrjaði af krafti og unnu mjög sterkt lið Jökuls frá Ólafsvík sem enduðu í öðru sæti 3-0. Eftir hádegi var spilað við Golfklúbb Fljótsdalshéraðs og náðu okkar menn ekki að sýna sína bestu hliðar eins og um morguninn og tapaðist sá leikur 2 ½ – ½. Þetta var dýrt fyrir okkar menn en þeir voru staðráðnir í að koma til baka fyrir næsta leik sem spilaðist á sunnudagsmorgni. Þar mætti GHH liði Hamars frá Dalvík, það var smá kuldi í okkar mönnum til að byrja með en smám saman sýndu þeir hversu magnaðir í golfi þeir eru og kláruðu leikinn 3-0.
GHH endaði því í 3. sæti í 5. deild á Íslandmótinu 2021 með 2 vinninga og 7.5 innbyrðis sigra. Golfklúbbur Hornafjarðar er mjög stoltur af þeirra framlagi og voru þeir klúbbnum og Hornfirðingum til sóma og miklar fyrirmyndir fyrir komandi kylfinga.
Mikill kostnaður fylgir því að fara með svona lið í keppni og bera leikmenn kostnað af því að mestu. Hluti of okkar metnaði er að reyna búa til umhverfi þar sem við getum sent lið í keppni og allir geti tekið þátt í því óháð því hvort golfarar geti borið upp slíkan kostnað. Í ár lagði GHH, Medial, Glacier Trips til og Klúbbhúsið fjármagn til að brúa bilið og vonum við í framtíðinni að við höldum áfram að fá aðstoð frá okkar góða samfélagi
Að lokum langar mig að þakka fyrir allan þann stuðning sem GHH hefur fengið, allt það starf, sjálfboðavinna og öll þau fyrirtæki sem hafa styrkt GHH. Öll vinna sem fólk í kringum klúbbinn hefur lagt til er ómetanlegt og er ástæða fyrir því að við eigum svona flottan golfvöll og svona flott barna- og unglingastarf.

Sindri Ragnarsson
formaður mótanefndar GHH