GEITAFJÖR Á HÁHÓLI

0
674

Nú hafa eflaust margir séð líflegar geitur hoppa um í haga á sumrin og einhverjir jafnvel smakkað á geitakjöti frá þeim hjónum Lovísu Rósu Bjarnadóttur og Jóni Kjartanssyni á Háhóli. Eystrahorn kíkti í heimsókn til þess fræðast um lífið á fjöruga geitabýlinu. Fyrir 11 árum bönkuðu 2 geitur upp á hjá þeim hjónum og síðan var ekki aftur snúið.

Jón: „Ég var að vinna á Dynjanda og var spurður hvort ég vildi ekki bara fá borgað í geitum, ég sagði jú jú, um að gera að eiga geitur. Þetta var einhverntímann í nóvember, svo annan í jólum var bankað hjá okkur þá voru mættar 2 geitur í hestakerru og þannig byrjaði það. Svo gátum við ekki hætt, þær eru svo skemmtilegar“. Smám saman bættust svo fleiri í hópinn, í dag eru 67 geitur á Háhóli og von er á um 50 kiðlingum núna með vorinu.

Lovísa: „Þær eru svo miklir vinir manns, þær eru svo uppátækjasamar og erfiðar, það er ekki annað hægt en að finnast þær skemmtilegar, þær eru svo miklir karakterar. Geitur eru bara þannig að annað hvort finnst þér þær skemmtilegar eða þú þolir þær ekki, þær gera bara það sem þeim dettur í hug. Það er allt í lagi að hafa geitur í lélegri girðingu á meðan þeim leiðist ekki en um leið og hún sér eitthvað spennandi hinum megin þá skiptir engu máli hvernig girðingu þú ert með, hún finnur gat og kemst í gegn ef hún ætlar sér, svo það getur farið mikill tími í eltingaleik, mjög gott að vera með skrefamæli þegar maður er geitabóndi“.

Þau segja geitabúskapinn vera hobbý eins og er enda sé geitabúskapur erfiður einn og sér. Til þess að það beri sig sem atvinnubúskapur þyrfti að bæta við mjólkun og jafnvel ferðaþjónustu. Þau útiloka ekki að umfangið stækki einn daginn en eins og er njóta þau þess að gera þetta í hjáverkum. Starfsemin er þó ansi mikil og ýmislegt sem þau framleiða. Kjötið er þeirra helsta afurð en þau reyna að nýta þær til fulls og eru með ýmsar aðrar vörur eins og sápur, band sem gert er úr fiðinu sem losnar á vorin og von er á stökum sem voru sendar til Svíþjóðar í sútun, geitastökur eru mjög hlýjar og henta vel í barnavagna til að mynda. Allar vörurnar eru seldar beint frá býli sem þýðir að öll sala fer í gegnum þau beint. Þau segja kjötsöluna ganga ágætlega en að fólk sé stundum smeykt við geitakjöt, það hafi kannski ekki gott orðspor á sér en að kjötið sé einstaklega ljúffengt ef það er eldað rétt.

„Kjötið er mjög prótínríkt og eiginlega engin fita en hefur ekki gott orð á sér það eru ekki margir sem vilja þetta af einhverjum ástæðum, fólk talar stundum um að það sé vond lykt af þeim. Hafrarnir auðvitað lykta á haustinn af því þeim finnst sexy að sitja og míga framan í sig og það er bara ekki geðslegt eftir mánuðinn svo eðlilega lykta þeir á fengitímanum en huðnurnar lykta ekkert illa. Margir sem segjast hafa smakkað geitakjöt sem var ekki gott en svo þegar við leyfðum svo sama fólkinu að smakkka hjá okkur skipti það um skoðun. Geitakjöt á nefnilega ekki að elda eins og lamb. Það er oft verið að reyna láta þetta passa í lambalærisuppskriftina, en þú eldar ekki hreindýr eins og hross bara af því þetta er sama stærð af dýri þetta er sitthvort kjötið og það þarf að pæla í því. Það er svo magurt svo það þarf að passa að það þorni ekki. Afi borðaði aldrei kjúkling af því kjúklingurinn sem hann fékk í sveitinni var svo vondur, en það var líka bara gamli haninn, eðlilega var hann ekki góður. Sama á líklega við hjá mörgum að hafa smakkað gamlan hafur eða gamla horaða huðnu sem hefur ekki verið gott kjöt og skepnan ekki á þeim stað að það ætti að vera að borða hana“.

Geitakjöt er mikið eldað á heimilinu og eru þau dugleg að prófa allskonar aðferðir. „Við elduðum einu sinni læri eins og lamb sem var ekki gott, svo bara leituðum við okkur upplýsinga á netinu og keyptum okkur geitauppskriftabók sem við fórum að elda upp úr. Það sem við komumst þá að var að hún er alltaf elduð við mikið lægri hita í lengri tíma. Einfaldast og best er að elda geitabóg með salti, pipar, timían eða rósmarín og lárviðarlaufi, setja svo grænmeti í stórum bitum í svarta pottinum. Svo bara inn í ofn og leyfa því að vera lengi, ekkert vatn eða neitt þannig. Leyfa því að bakast í 3-3,5 tíma í 140°-150°c heitum ofni. Þetta er langeinfaldast og mjög gott. En það er líka rosa gott að gera allskonar pottrétti og nota til þess mið-austurlensk krydd eins og kanil, kardimommur og kakó eitthvað sem maður myndir frekar nota í kökur passa rosalega vel með geitinni“.

Þau segja það besta við búskapinn séu kiðlingarnir, þeir hafi heillað þau upp úr skónum fyrir 11 árum og gera enn. „Það getur verið voða gaman að setjast bara niður í stíu og kiðlingarnir koma svo og klifra á manni, þetta er svo róandi. Sérstaklega er þetta notalegt þegar þær eru á vissum aldri, þá eru þær svo kelnar. Svo byrja þær að brölta og vilja aðeins slást við mann og stanga og svoleiðis. Þú ert algjörlega í núinu þegar þú ert með kiðling, maður er ekkert hugsað um neitt annað. Þau eru svo forvitin og skemmtileg svolítið eins og hvolpar. Þegar maður fer ofan í stíuna hópast þær alveg að manni, það er það sem heillar okkur alveg, kiðlingarnir sækja svo fast í mann en ekki til að fá að borða bara til þess að fá knús. Stundum bara hoppa þeir í fangið á manni og sofna“.

Við enduðum heimsóknina á því að heimsækja fjósið og heilsa upp á geiturnar þar sem kiðlingarnir tóku fagnandi á móti knúsum og mat. Þau segja að allir megi hafa samband og koma í heimsókn til þess að kíkja og klappa eins er hægt að hafa samband við þau til þess að kaupa geitaafurðir. Að lokum vilja þau þakka öllum þeim sem gáfu þeim jólatré það kom sér mjög vel og geiturnar sérstaklega hamingjusamar með snarlið.
Eystrahorn þakkar þeim hjónum fyrir spjallið og óskar þeim góðs gengis í komandi kiðlingaburði.