Fyrsti sigur MFL. karla í körfubolta á þessum vetri

0
825

Sindri sigraði Skallagrím í Borgarnesi 71-80 sunnudaginn 3. nóvember og eru því komnir áfram í 16. liða úrslit Geysisbikarsins.
Sindramenn komu ekki nógu vel stemmdir til leiks í upphafi og náði Skallagrímur mest 13 stiga forustu í fyrri hálfleik. Sindramenn náðu þó að klóra í bakkann og rétta stöðuna af fyrir hálfleik og gengu Skallagrímsmenn með 6 stiga forustu inn til búningsherbergja eftir fyrri hálfleikinn.
Það var svo jafnt á flestum tölum í þriðja leikhluta en það var í þeim fjórða sem Sindramenn settu í fluggírinn og fóru með sigur af hólmi, 15-31. Mestu munaði um framlag Ignas í þeim leikhluta en hann hafði ekki náð sér á strik í fyrri hálfleiknum.
Það var hins vegar Svartfellingurinn Stefan Knezevic sem var maður leiksins með 10 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Frábær alhliða leikur þar á ferð. Árni Birgir var stigahæstur og bætti við 15 stigum og 6 fráköstum á aðeins 17 mínútum spiluðum, Andreé var með 13 stig, Ignas 12, Arnar Geir 11, Gísli 7 og Ivan og Eric 6 stig hvor.
Dregið verður í 16 liða úrslit Geysisbikarsins fimmtudaginn 7. nóvember og verður fróðlegt að sjá hverjir verða næstu andstæðingar Sindra.
Næsta verkefni í 1. deildinni er heimaleikur á móti Snæfell föstudaginn 8. nóvember klukkan 20:00 og hvetjum við alla til að mæta og hvetja Sindra áfram.