Fyrsti heimaleikur Sindra í 1. deild í körfubolta

0
2481

Vegferðin

Mikil eftirvænting er hjá körfuboltaáhugamönnum á Hornafirði þar sem næstkomandi laugardag, 20. október kl. 14 mun meistaraflokkur karla hjá Sindra leika sinn fyrsta heimaleik frá upphafi í
1. deild í körfubolta. Með þessum leik má segja að langþráðu markmiði sé náð eftir 13 ára samfleytt starf. Körfuknattleiksdeild Sindra var endurvakin árið 2005 þegar Arnar Guðjónsson og Skúli Ingibergur Þórarinsson fluttu á Höfn. Í upphafi var höfuðáhersla á yngriflokka en meistaraflokkur karla líka starfræktur. Tímabilið 2015-2016 fellur liðið í
3. deild, eftir það hefur leiðin legið upp á við með komu erlendra leikmanna, spilandi þjálfara og góðs kjarna heimamanna. Síðasta vor var svo markmiðinu náð með sæti í 1. deild.

Breytingarnar við að flytjast upp um deild

Leikmenn og þjálfun
Getustigið er allt annað í 1. deildinni samanborið við neðri deildir, um er að ræða litla deild með 8 liðum og er spiluð þreföld umferð. Öll hin liðin hafa spilað í úrvalsdeild frá aldamótum og hafa á að skipa frambærilegum liðum. Markmiðið fyrir þetta ár var að mæta með samkeppnishæft lið til keppni, auka kröfur á og gæði leikmanna, þjálfunar og bæta umgjörð í kringum liðið og leiki. Einn þáttur í þessu var að ráða reyndan atvinnuþjálfara. Fyrir valinu var Mike Smith, hann er er Ameríkani og hefur þjálfað við góðan orðstír í Evrópu ,nú síðast í Lúxemborg bæði félagslið og U20 ára landsliðið. Í er dag liðið samsett af góðum kjarna heimamanna ásamt atvinnumönnunum Barrington Stevens og Kenny Fluellen.
Starfsmenn og kostnaður
Einnig eru gerðar meiri kröfur til starfsmanna leiksins. T.d. þarf tvo auka starfsmenn sem sinna lifandi tölfræði á meðan leik stendur og allt að sex einstaklinga á ritaraborðið.
Kostnaðurinn við rekstur deildarinnar er eitt af því sem eykst mikið við að fara í 1. deild. Um sannkallaða landsbyggðadeild er að ræða og mikið um löng ferðalög. Einnig er krafa um óháða dómara sem deildin greiðir fulla kostnað af eða um 100 þúsund kr. á hvern heimaleik. Einnig segir sig sjálft að fleiri gæða atvinnumenn og þjálfari ásamt húsnæði eru stórir þættir sem ýta kostnaðinum upp.
Umgjörðin á heimaleikjum
Þar sem kröfurnar við að komast upp um deild aukast á margan hátt þá er umgjörðin þar ekki undanskilin og hefur það verið markmið stjórnarinnar að gera hana eins glæsilega og kostur er. Heimavöllurinn sjálfur hefur tekið miklum stakkaskiptum og mun ganga undir heitinu Ice Lagoon höllin. Nýtt parketgólf og körfur gefa húsinu allt aðra ásýnd og eru algjör bylting. Þar að auki er komin glæsileg tafla sem er í raun risastór Led skjár. Skjárinn opnar mikla möguleika fyrir lifandi umfjöllun, auglýsingar og annað efni. Sindri TV verður hleypt af stokkunum, um er að ræða samstarfsverkefni við FAS um að taka upp og sýna beint frá öllum leikjum ásamt því að vera með fjölmiðlaumfjöllun eins og viðtöl og greinaskrif eftir leiki.
Sindrahamborgarar á Kaffi Horninu fyrir leiki
Leikmenn fara á leikdegi í mat í Pakkhúsinu, og Kaffi Hornið býður upp á Sindrahamborgara fyrir stuðningsmenn klukkustund fyrir leik. Þar verða borgarafundir þar sem Mike þjálfari mun koma og heilsa upp á mannskapinn og fara yfir leik dagsins. Miði á leikinn er innifalinn í verði hamborgarans.
Að lokum viljum við þakka öllum sem komið hafa að starfi og stuðningi við deildina í ár og undanfarin ár og sjáumst í íþróttahúsinu næstkomandi laugardag.

F.h. stjórnar Körfuknattleiksdeildar Sindra Hjálmar J. Sigurðsson