Fyrir 30 árum

0
672

Í 6. tölublaði Eystrahorns sem kom út fimmtudaginn 7. febrúar árið 1991 birtist þetta skemmtilega viðtal við unga upprennandi tónlistarmenn á Hornafirði. Kannist þið við drengina ?

Bílskúrsbandið

Ef gengið er um Austurbrautina seinni part dags má stundum heyra trumbuslátt mikinn úr bílskúr einum. Þarf hafa þrír ungir piltar stofnað hljómsveit ofan í gryfjunni og skemmta sér við æfingar. Hljóðfærin hafa þeir búið til sjálfir af miklum hagleik og efnið er allt heimafengið.
Eystrahorn rann á hljóðið einn daginn og áræddi að trufla tónlistarmennina:
Sælir strákar, megum við taka mynd af ykkur fyrir Eystrahorn ?
Já, já, það er allt í lagi.
Viljið þið kynna ykkur fyrir lesendum ?
Ég heiti Páll Birgir, 9 ára og spila á trommur.
Friðrik, ég er 10 ára og spila á gítar.
Gunnar Örn, 11 ára og spila líka á gítar.
Er langt síðan þið smíðuðu þessi hljóðfæri ?
Við gerðum það í haust áður en skólinn byrjaði.
Hvar fenguð þið efni ?
Bara hérna í bílskúrnum hjá Jóni og Ágústínu.
Semjið þið lög sjálfir líka ?
Já, smávegis og svo spilum við og syngjum allskonar lög sem við kunnum.
Eru þið í Tónlistarskólanum ?
Friðrik: Já, ég er í gítartímum.
Hinir: Við stefnum að því að komast í Tónlistarskólann líka.
Þið verðið að spila eitt lag fyrir okkur.
(Verst að geta ekki sent spólu með hverju blaði)
Palli trommari að loknu laginu: Sunguð þið strákar ?

Sigurjón Gíslason(í starfskynningu) GG.