Frístund

0
1612

Þann 20. október munu Nýheimar þekkingarsetur og Sveitarfélagið Hornafjörður, í samstarfi við félög og samtök á Hornafirði, standa fyrir lifandi kynningu fyrir íbúa á fjölbreyttu félagsstarfi í sveitarfélaginu. Markmið dagsins er að draga fram og kynna margbreytileika starfsins; skapa vettvang fyrir samtökin til að kynna starf sitt; upplýsa íbúa um tækifæri þeirra til þátttöku og stuðla að aukinni virkni þeirra.
Fyrirmynd dagsins er Starfastefnumót sem haldið var á Höfn haustið 2016 en kveikjan að hugmyndinni voru jafnframt niðurstöður viðhorfskannanna meðal ungs fólks á Hornafirði sem voru framkvæmdar í tengslum við verkefni setursins. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að ungt fólk telur sjálfboðaliðastörf eftirsóknarverð og vel metin í samfélaginu. Mikill áhugi var á félagslegri virkni innan hópsins en jafnframt kom fram að hópurinn telur sig hafa litla vitneskju um tækifæri sín til þátttöku í hverskonar félagsstarfi í heimabyggð.
Svo þessi dagur geti orðið að veruleika biðlum við til allra félaga og samtaka á Hornafirði að koma og taka þátt, kynna sitt starf og bjóða nýja meðlimi velkomna. Kristín Vala verkefnastjóri hjá Nýheimum þekkingarsetri hefur umsjón með verkefninu og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband á skrifstofu í Nýheimum, kristinvala@nyheimar.is eða í síma 470-8089
Vonir standa til að viðburðurinn verði upplýsandi og árangursríkur fyrir alla sem að honum koma en fyrst og fremst er vonast eftir góðri þátttöku allra íbúa.