Fréttir úr Þrykkjunni

0
1080
Sigurvegari söngkeppninnar, Amylee da Silva

Í október mánuði og það sem af er nóvember hefur nóg verið að gera hjá ungmennum sem sækja Þrykkjuna félagsmiðstöð. Í október var haldið upp á hrekkjavökuna aldursskipt. Tess Rivarola starfsmaður Þrykkjunnar föndraði með yngri hópnum í 5.-7. bekk grímur og ákveðið var út frá því að hafa samband við foreldra og íbúa Hornafjarðar til að fá þau í lið með sér svo hægt væri að uppfylla óskir krakkana um að fá að ganga í hús. Íbúar tóku vel í þessa nýjung og voru það yfir 20 hús sem voru skreytt til að taka á móti krökkunum í grikk eða gott (trick or treat). Um 100 manns bæði foreldrar og börn hittust fyrir utan Þrykkjuna þar sem gengið var af stað í leiðangurinn. Allir sem tóku þátt bæði gestgjafar og leiðangursmenn voru mjög ánægðir með þennan dag. Allir eiga stórt hrós skilið fyrir vel heppnaða hrekkjavöku.
Degi fyrr eða þann 30. okt. var draugahús í Þrykkjunni fyrir eldri ungmenni Þrykkjunnar þ.e. 8.– 10. bekk. Forstöðumaður Þrykkjunar með stórri hjálp vina sinna sá um undirbúning draugahúss og tóku þau þátt í því að gera daginn ógleymanlegan fyrir ungmennin sem sóttu draugahúsið heim. Um 70 ungmenni gengu í gegnum draugahúsið (mis langt þó ) og létu allskyns óhugnalega trúða hræða sig. Vel heppnað kvöld sem tókst vel.

Hér má sjá gestgjafa draugahússins

Söngkeppni Þrykkjunnar var haldin í Sindrabæ 12. nóvember. Í þessari söngkeppni er valinn sá einstaklingur eða hópur sem tekur svo þátt fyrir hönd Þrykkjunnar og keppir á USSS sem haldin er í ár á Selfossi þann 6. desember n.k. USSS er skammstöfun fyrir Undankeppni Söngkeppni Samfés á Suðurlandi en þar koma allar félagsmiðstöðvar á Suðurlandi saman og keppa um hvaða þrjár félagsmiðstöðvar senda svo keppendur á söngkeppni Samfés sem haldin verður í Reykjavík í mars 2020.
Í Sindrabæ tóku 6 atriði þátt í söngkeppninni sem er met þátttaka.  Það var Amylee da Silva sem bar sigur úr býtum með flutningi á laginu Read all about it og óskum við henni innilega til hamingju með sigurinn. Öllum öðrum þátttakendum, leiðbeinendum hópsins í söng og framkomu en það voru Tessa Rivarola, Yaniser Silano og Alessandra Trindade, dómurum kvöldsins en það voru Kristín Gestsdóttir, Kristjón Elvarsson og Hafdís Hauksdóttir og ekki má gleyma tæknihjálpinni Luiz Trindade, þau fá öll kærar þakkir fyrir aðkomu í því að gera kvöldið skemmtilegt og spennandi. Einnig er vert að þakka öllum þeim sem gáfu sér tíma til að koma og fylgjast með keppninni í Sindrabæ.
Nóg er eftir að gera/framkvæma í félagsmiðstöðinni Þrykkjunni. Næst á döfinni er vitanlega að fara á Selfoss og horfa á Amylee keppa á móti 12 öðrum keppendum. Við verðum því að fylla rútuna svo Amylee fái mikinn styrk frá okkur. Svo er það Stíll sem er næsta stóra viðfangsefni og verður það auglýst nánar í næstu viku. Fylgist með okkur í Þrykkjunni á facebook síðu okkar.

F.h. Þrykkjunnar félagsmiðstöð
Ingólfur Waage, forstöðumaður Þrykkjunnar