Fréttir af fyrrum Sindrastelpum

0
3967
Guðný Árnadóttir besti leikmaður FH 2017

Nokkrar uppaldar Sindrastelpur leika með liðum í Pepsídeild kvenna og hlutu nokkrar þeirra viðurkenningar á uppskeruhátíðum Pepsídeildarliðanna s.l helgi.
Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir er fædd árið 1998 og er því 19 ára. Hún útskrifaðist sem stúdent frá FAS s.l. vor og eftir það lá leiðin til Vestmannaeyja þar sem hún hafði gengið til liðs við ÍBV. Ingibjörg spilaði nánast alla leiki með liðinu, bæði með 2.fl og eins með mfl og varð meðal annars bikarmeistari með ÍBV nú í byrjun september. Ingibjörg hefur spilað mikið með yngri landsliðunum og nú síðast var hún valin til að leika með U-19 í milliriðli Evrópumótsins í Þýskalandi í júní s.l. Á uppskeruhátíðinni var Ingibjörg Lúcía svo valin efnilegasti leikmaður ÍBV 2017.
Ingibjörg Valgeirsdóttir er fædd árið 1998 og er því 19 ára. Hún gekk til liðs við KR í janúar 2016 og spilaði fyrst með 2.fl en hefur síðan verið að vinna sig upp í að spila með mfl og hefur ýmist verið aðal- eða varamarkmaður þeirra í sumar. Ingibjörg hefur tekið þátt í mörgum verkefnum með yngri landsliðunum og eins og nafna hennar þá var hún valin til þess að leika með U-19 í milliriðli Evrópumótsins sem fram fór í Þýskalandi í júní s.l. Á uppskeruhátíðinni var Ingibjörg valin efnilegasti leikmaður KR 2017.
Guðný Árnadóttir er fædd árið 2000 og er því 17 ára. Hún gekk til liðs við FH í maí 2013, en þá flutti fjölskyldan til Víkur í Mýrdal en foreldrar hennar sáu til þess að Guðný gæti æft með FH þrátt fyrir þessa fjarlægð. Fyrstu árin spilaði Guðný með yngri flokkum FH en fljótlega vann hún sér inn fast sæti í mfl og hefur spilað nánast alla leiki með þeim frá árinu 2015. Guðný hefur einnig spilað mikið með yngri landsliðunum og nú síðast með U-19 í Þýskalandi í september. Pepsímörkin á Stöð 2 völdu á dögunum lið ársins í Pepsídeild og er það lið skipað leikmönnum sem þótt hafa skarað framúr í sumar. Guðný var í þessum hópi sem lykilmaður í vörninni. Á uppskeruhátíðinni var Guðný valin besti leikmaður FH 2017.
Einnig hefur Bríet Bragadóttir gert góða hluti sem dómari í Pepsí-deild kvenna. Hún var fyrsta konan sem dæmir bikarúrslitaleik í meistaraflokki, sem aðaldómari, þann 9. september þegar ÍBV og Stjarnan mættust í úr­slita­leik Borg­un­ar­bik­ar-sins. Bríet hefur kallað eftir því að fá fleiri konur í dómgæslu á Íslandi en hún er eini dómarinn sem dæmir í Pepsi-deild kvenna sem aðaldómari. Hún var valin dómari ársins ásamt Gunnari Jarli Jónssyni af leikmönnum Pepsí-deildarinnar.
Við óskum þessum stelpum öllum innilega til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að fylgjast með þeim á komandi árum.