Framboðið Kex

0
865

Næstkomandi miðvikudag, þann 23. febrúar, verður stofnfundur framboðsins Kex haldinn í Nýheimum. 
Framboðið Kex er hópur ungs fólks sem hingað til hefur ekki látið til sín taka í sveitarstjórnarmálum. Við eigum það öll sameiginlegt að hafa valið okkur Sveitarfélagið Hornafjörð sem framtíðar heimili og höfum við skýra og einlæga sýn á samfélagið sem við viljum búa í. 
Við viljum að sveitarfélagið myndi sér sterka og bjarta framtíðarsýn, þar sem ákvarðanir og uppbygging tekur mið af því að hér vilji fólk búa. Samfélagið þarf því að hafa svigrúm til þess að vaxa og dafna.  
Fjölmörg atvinnutækifæri eru fyrir hendi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Húsnæðisskortur og skortur á dagvistun fyrir börn á ekki að verða þess valdandi að fólk sjái sér ekki fært að flytja í sveitarfélagið. Það á að vera ákjósanlegt og eftirsóknarvert að búa alls staðar innan sveitarfélagsins og uppbygging þarf að endurspegla það. 
Fólk býr við misjafnar aðstæður í sveitarfélaginu og aðgengi að þjónustu, t.d. fyrir barnafjölskyldur, er mismunandi eftir því hvar fólk velur sér búsetu. Huga þarf að aðgerðum sem stuðla að jöfnuði meðal íbúa í sveitarfélaginu öllu. Hér á að vera gott að búa, óháð því hver við erum, hvar við búum, hvaðan við komum eða hvað við gerum. 
Kex er nýtt framboð, ferskur blær inn í sveitarstjórnarmál í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Framboðið Kex berst fyrir umhverfismálum, jafnrétti, sýnileika í stjórnsýslunni og því að ákvarðanir sem teknar eru séu samfélaginu öllu til hagsbóta.
Öll sem hafa áhuga á að mæta á stofnfundinn eru hvött til að þess. Í kjölfar stofnfundar förum við í málefnavinnu framboðsins og viljum við heyra í breiðum hópi íbúa sveitarfélagsins. Framboðið Kex vill að stefnumál endurspegli þarfir sem flestra. 
Við viljum að allir íbúar sveitarfélagsins hafi rödd, þess vegna er Kexið við öll.
Framboðið Kex hlakkar til að starfa með íbúum sveitarfélagsins og í þágu samfélagsins.

Fyrir hönd framboðsins Kex,
Grasrótin

Frekari upplýsingar má fá með því að hafa samband í gegnum tölvupóst frambodidkex@gmail.com eða í gegnum samfélagsmiðla framboðsins