Frá Hornafirði til Victorville

0
1427
Svanfríður og Bert ásamt Eyjólfi og Ingva

Svanfríður Eygló er Hornfirðingur sem er búsett í Bandaríkjunum, hún er dóttir Arnar Arnarsonar (Bróa) og Guðlaugar Hestnes. Svanfríður býr í Victorville í Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum Albert N. Getchell III eða Bert eins og hann er kallaður. Saman eiga þau tvo syni þá Eyjólf Aiden og Nathaniel Ingva. Þau giftu sig í Möðruvallakirkju þar sem Eyjólfur var einnig skírður árið 2004. Í janúar 2005 flugu Svanfríður og Eyjóflur til USA til þess að hefja líf sitt þar til Chicago þaðan sem Bert er. Í apríl 2007 fæddist okkur yngri sonurinn, Ingvi. Árið 2012 bauðs Bert vinna sem annar flugstjóri á ómönnuðum flugvéladrónum, en hann fer oftsinnis erlendis vegna vinnu og er þá í burtu nokkra mánuði í senn.
Eystrahorn ákvað að heyra í Svanfríði og forvitnast um lífið vestanhafs á þessum fordæmalausu tímum því ekki nóg með að heimurinn sé að kljást við Covid-19 faraldur þá eru miklir skógareldar í Kaliforníu.

Hvernig er að búa í Victorville ?

Victorville er sérstakur staður; borgin er staðsett uppi á fjalli í eyðimörk. Margir hér eru láglaunafólk sem hafa flúið dýrtíð Los Angeles. Aðrir kjósa að búa hér en aka niður fjallið á hverjum degi til að sækja vinnu. Við búum í hverfi sem telur rúmlega 10.000 manns og er það þokkalega öruggt en við erum með öryggisgæslu sem ekur um alla sólarhringinn. Borgin liggur þétt við fimm aðrar borgir, mjög svipað og á stór Reykjavíkursvæðinu. Við erum 135 km í NA frá Los Angeles og í 303 km í SV frá Las Vegas.

Hvernig er hið daglega líf þessa dagana ?

Lífið undanfarna mánuði hefur verið sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Við höfum, eins og öll heimsbyggðin, ekki farið varhuga af COVID-19. Bert var í erlendis til vinnu í janúar og sat svo fastur vegna ferðabanns sem sett var á vegna COVID-19. Hann fer svo aftur 1. október og verður fram í janúar búumst við við.
Eyjólfur og Ingvi hafa verið í heimaskóla frá því í mars og vitum við ekki hvenær skólar verða opnaðir á ný.
Ég er þerapisti að mennt og veiti fósturbörnum samtalsmeðferðir og einnig foreldrum sem misst hafa forræði yfir börnunum vegna ofbeldis ýmisskonar og/eða vanrækslu. Ég vinn að lögggildingu núna og er á lokasprettinum að klára kandídatstímana mína sem eru 3000 klst eftir að MA gráðunni hefur verið náð. Ég hef unnið heima frá því í mars líka og eru engar upplýsingar um hvenær skrifstofan verður opnuð á ný. Eitt er víst að þetta eru ekkert sérlega eftirsóknaverðir tímar, hvort sem þeir snúa að COVID-19, forsetakosningunum yfirvofandi, óeirðunum sem staðið hafa yfir undanfarið og skógareldunum. Við búum blessunarlega ekki á hættusvæði í þetta skipti en fjallabæirnir í kring um okkur sem og þeir bæir og borgir í námunda við okkur hafa því miður orðið illa úti.

Miklir skógareldar eru í Kaliforníu og fylgir því mikil loftmengun
Miklir skógareldar eru í Kaliforníu og fylgir því mikil loftmengun

Loftmengun hér hefur verið slæm undanfarið og reykurinn frá eldunum hefur verið nærri okkur og vel sýnilegir alla daga. Fólki greinir á um ástæður eldanna, þ.e. hvort þeir eigi upptök vegna breyttra loftslagsmála eða einhvers annars. Ég held að það séu mýmargar ástæður sem blandast saman og má þá nefna fólk sem skýtur upp flugeldum við skraufþurr skóglendi, þverrandi fjárútlát til þeirra sem hugsa um skógana sem gerir það að verkum að illa er hægt að minnka eldhættu á ári hverju og fleira og fleira. Það eru skógarelda á hverju ári þar sem fólk lætur lífið og eyðilegging er mikil. Því miður. Hitinn hér er hár á sumrin og eru hitatölurnar milli 40-45 C en rigningatímabilið er frá nóvember fram í apríl. Svo ekki þarf mikið til að skraufþurr náttúran brenni upp.
Annars gengur lífið sinn vanagang hjá okkur og við erum kát.
Bið að heilsa heim.