Frá Cebu til Hafnar

0
1111

Amor Joy Pepito Mantilla er 34 ára gömul tveggja barna móðir og kemur frá Cebu í Filippseyjum. Amor flutti til Íslands 24. ágúst 2015 og hefur verið á Höfn í Hornafirði allar götur síðan. Amor var tilbúin að segja lesendum Eystrahorns aðeins frá því hvernig hún og hennar fjölskylda upplifa jólin á Íslandi og hvernig þau eru ólík jólunum í hennar heimalandi.
Er einhver sérstök hefð sem þú heldur meira uppá en aðrar?
Sérstök hefð sem ég elska meira en aðrar er auðvitað að skreyta snemma fyrir jólin. Úti á Filippseyjum þegar BER mánuðir byrja, [Innskot Eystrahorns; BER mánuðir eru fjórir síðustu mánuðir ársins, september, október, nóvember og desember], þá fer aðeins að kólna og jólaandinn byrjar. Í september fer fólk að leita að jólaskrautinu sínu og byrjar að skreyta. Sumir eru búnir að skreyta jólatréð um miðjan september, aðrir í október. Mamma mín var t.d. búin að skreyta sitt jólatré 12. október og allir glaðir með það.
Þann 24. desember kl. 23:00 fer fólk til kirkju í messu sem kallast „misa de gallo“.
Það er klukkutíma messa og þegar klukkan er 24:00 á miðnætti þá er hátíðarnóttin hafin eða „noche buena“ þar sem fjölskyldan borðar, syngur og fagnar saman afmæli Jesú með látum, meira að segja flugeldum.
Jólatréð og jólaskrautið er tekið niður í janúar eða febrúar, það fer alveg eftir því hvernig fólk vill hafa það. Filippseyjar eru þekktar fyrir að fagna lengstu jólahátíð í heimi. Þetta er ekki bara jóladagur heldur jólavertíð.

Hér má sjá okkar helsta jólaskraut, það heitir Parol og er gert úr bambus og pappír. Hönnunin táknar stjörnuna yfir Betlehem sem vísaði vitringunum þremur leiðina að jötunni. Jólaskrautið táknar einnig sigur ljóssins yfir myrkrinu og von og kærleika Filippseyinga yfir jólahátíðina.

Hvernig upplifir þú íslensk jól?
Fyrstu jólin á Íslandi voru skrítin, ég skildi ekki afhverju fólk er að halda „annan í jólum“ og af hverju er fólk að borða skötu með pissulykt á Þorláksmessu, en ég smakkaði samt, það var á hótelinu og ég var næstum því búin að æla fyrir framan alla! Mér fannst svo kalt og dimmt á Íslandi sem getur verið niðurdrepandi svo mig langaði helst að setja jólaljósin upp mun fyrr, en það er ekki venjan að gera það svona snemma á Íslandi. En mér finnst nú allt í góðu lagi að setja upp jólaseríurnar fyrr í myrkrinu hér. Ég man þetta svo vel, búðin var að byrja að selja jólaskraut í byrjum desember. Fyrstu jólin mín hér voru erfið.
Hverjar eru matarhefðirnar um jólin?
Matarhefðirnar um jólin eru misjafnar, Filippseyjar eru byggðar á mörgum eyjum. Á okkar eyju borðum við lumpia eða vorrúllu, pancit sem eru núðlur og lechon sem er heilsteikt svín.
Er einhver íslensk hefð sem þú hefur tekið uppá síðan þú fluttir hingað?
Nei, ekki nema þá að fara í Þorláksmessuskötu og að opna jólagjafirnar kl. 18 á aðfangadag. Á Filippseyjum opnum við jólagjafirnar á miðnætti.

Jólakveðja frá Mantilla fjölskyldunni


UPPSKRIFT:
Steiktar hrísgrjónanúðlur Pancit bihon (fyrir uþb. 8 manns)
Innihald

 • 450 gr hrísgrjónanúðlur
 • 450 gr svínakjöt skorið í litla bita
 • 450 gr eldaður kjúlingur, beinhreinsaður og skorinn í litla bita
 • 60 gr belgbaunir
 • 1 bolli gulrætur, niðurskornar
 • ½ haus lítið hvítkál, saxað
 • 1 bolli sellerí lauf, smátt saxað
 • 1 miðlungs stór laukur, saxaður
 • ½ msk hvítlaukur, saxaður smátt
 • 1 stk kjúklingakraftur
 • 5 msk soya sósa
 • 3-4 bollar vatn

Leiðbeiningar
Í stórum potti, steikið hvítlaukinn og laukinn.
Bætið svínakjötinu og kjúklingnum við og steikið í 2 mínútur.
Bætið við kjúklingakrafti og vatni og látið malla í 15 mínútur.
Bætið við gulrótum, belgbaunum, hvítkáli og sellerí laufi og látið malla í nokkrar mínútur.
Takið nú allt úr pottinum nema vökvann og setjið til hliðar.
Í pottinum með vökvanum, bætið við soya sósu og blandið vel saman.
Setjið hrísgjórnanúðlurnar (pancit bihon) útí vatnið. Verið viss um að hafa lagt núðlurnar fyrst í vatn í uþb. 10 mínútur áður en þær fara í pottinn. Eldið núðlurnar þar til vökvinn hefur gufað upp.
Bætið nú grænmetinu og kjötinu við og látið malla í 1-2 mínútur.
Berið fram heitt, deilið og njótið!