Flóamarkaður á Hafinu

0
1321

floa-01Laugardaginn 28. júlí verður haldinn flóamarkaður á Hafinu að Heppuvegi 5. Markaðurinn er opinn fyrir alla og öllum velkomið að koma og selja út úr skápum og geymslum bæði notað og nýtt. Föt, leikföng, bækur, styttur, gamla bumbubanann og bara hvað sem er. Þetta er samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Hafsins og Hirðingjanna, þátttaka er ókeypis og hægt að fá lánað borð á staðnum undir söluvarning. Hirðingjarnir ætla líka að vera með opið hjá sér í Óslandinu ásamt því að vera með úrval vel valdra hluta til sölu á Hafinu. Á svæðinu verður kassi merktur Hirðingjunum þar sem hægt er að skilja eftir óselda hluti sem fólk vill ekki taka með sér heim aftur. Dagvist aldraðra verður með hannyrðir til sölu, slysavarnarkonur ætla að mæta með candyflossvélina, Berg-spor verður með sínar vörur á svæðinu og heyrst hefur að Hafið ætli að selja kleinur steiktar á staðnum. Ef vel tekst til ætlum við að gera þetta að föstum viðburði í vetur. Þetta er frábær vettvangur til að sýna sig og sjá aðra og eiga góða stund saman, munum að láta nýju íbúana okkar vita svo allir geti verið með. Það þarf ekki að panta borð fyrirfram heldur bara mæta á svæðið en fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Hildi Ýr í síma: 869-0160 eða Evu Birgis í síma: 866-0963. Við minnum alla á að fara í hraðbankann áður en þeir mæta.

Flóamarkaður – Hafið – Heppuvegur 5 – 28/7 frá kl: 12 – 16.