Fjölmenning í sveitarfélaginu Hornafirði

0
195

Hnattvæðingin sem einkennt hefur samfélög um heim allan síðustu áratugi felur meðal annars í sér mikla fólksflutninga. Þökk sé hraðri þróun í samskipta- og flutningstækni hefur í sjálfu sér aldrei verið auðveldara að flytja milli landa, enda er heimurinn orðinn svo tæknivæddur að samskipti milli mismunandi landa, svæða og einstaklinga hafa aldrei verið skilvirkari. Þessar breytingar sem eru að eiga sér stað víðsvegar í heiminum gera það að verkum að heilu samfélögin eru nú byggð upp af mörgum mismunandi þjóðernum, menningu og kynþáttum, en samfléttun þessara þátta við hornfirskt samfélag er einmitt eitt sem fjölmenningarverkefni sveitarfélagsins einblína hvað mest á. Í Sveitarfélaginu Hornafirði er íbúafjöldi 2541 manns og af þeim hafa 695 einstaklingar erlent ríkisfang og eru þeir því um 27% íbúa. Vert er að taka fram að tölfræðin sem unnin er með byggir á þeim sem hafa erlent ríkisfang en margt fólk af erlendum uppruna eru nú íslenskir ríkisborgarar og með íslenskt ríkisfang. Í Grunnskóla Hornafjarðar eru rúmlega 19% barna innflytjendur, eða börn innflytjenda og því eru töluð yfir 14 mismunandi móðurmál, fyrir utan íslensku, innan veggja grunnskólans. Flest börn af erlendum uppruna hafa pólsku sem fyrsta mál, en næst flest filippeysk mál. Flestir innflytjendur í sveitarfélaginu koma einmitt frá Póllandi svo tölfræði grunnskólans er í takt við það, en margir hópar eru mun fjölmennari en Filippseyingar. Til dæmis er fólk frá Rúmeníu, Króatíu og Tékklandi í öðru, þriðja og fjórða sæti yfir fjölmennustu hópa sveitarfélagsins. Benda má á að það er þó talsverður munur milli póstnúmera. Pólverjar eru fjölmennasti hópurinn í öllum þremur póstnúmerum sveitarfélagsins og er afgerandi fjölmennasti hópurinn bæði í póstnúmerunum 780 og 781 með 33,1% og 35% íbúa, en í póstnúmerinu 785 hefur prósentan lækkað í 25,3%. Þá er næstfjölmennasti hópurinn í 785 Rúmenar með 19,5% svo það er mjótt á munum á fjölmennustu hópunum þar meðan að í 780 og 781 eru næstfjölmennustu hóparnir Króatar með 14,6% og Rúmenar með 9,8%. Einstaklingar af erlendum uppruna, bæði fullorðnir og börn, þurfa oft á tíðum sérstaka aðstoð við að aðlagast íslensku samfélagi sem kemur ef til vill ekki á óvart í ljósi þess að íslensk menning getur verið gífurlega frábrugðin þeirri sem þau þekkja sjálf. Meginmarkmið fjölmenningarverkefna er að opna samfélagið fyrir fjölbreytileika og tryggja aðgengi að þátttöku, upplýsingum og þjónustu, enda eigum við öll jafnan rétt á því óháð uppruna. Fjölmenning er verðmætur menningarauður sem ber að fagna og nýta sér. Við erum svo heppin FJÖLMENNING Í SVEITARFÉLAGINU HORNAFIRÐI Línurit gert með gögnum frá Hagstofu Íslands sem sýnir fjölda íbúa með erlent ríkisfang í sveitarfélaginu Hornafirði á árunum 2002-2022. að hér í sveitarfélaginu búa einstaklingar frá að minnsta kosti 51 landi og hvert og eitt á sér sérstaka menningu sem eiga þátt í að skapa fjölmenningarsamfélagið Hornafjörð. Nú á dögunum var Anna Birna Elvarsdóttir ráðin í stöðu verkefnastjóra fjölmenningar- og gæðamála, en Hildur Ýr Ómarsdóttir starfar enn sem sérfræðingur í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Fyrir utan þær starfar hér sérstakt Fjölmenningarráð sem einblínir einungis á málefni einstaklinga af erlendum uppruna og fundar það á tveggja mánaða fresti og skipar Nejra Mesetovic formennsku. Margir viðburðir og verkefni eru í bígerð, bæði hjá Fjölmenningarráði og hjá verkefnastjóra fjölmenningarmála og öruggt að segja að það eru spennandi tímar framundan í sveitarfélaginu. Við viljum þá benda á Facebook-síðuna „Living in Hornafjörður“, en þar birtast auglýsingar, fréttir og fleira á öðrum tungumálum en íslensku og hvetur síðan fólk af erlendum uppruna til þess að taka virkan þátt í þeim viðburðum sem eiga sér stað í sveitarfélaginu. Einnig er þeim sem vilja skapa/taka þátt í fjölmenningarlegum viðburðum eða hafa aðrar ábendingar velkomið að senda tölvupóst á annab@ hornafjordur.is.

Anna Birna Elvarsdóttir