Fjölmenni og fjör við opnun gönguleiðarinnar Mýrajöklar

0
1969

Gönguleiðin Mýrajöklar, sem er annar hluti Jöklaleiðarinnar, var opnuð formlega í Haukafelli fimmtudaginn 31. ágúst sl. Við sama tilefni var vígð ný göngubrú yfir Kolgrafardalsá sem opnar gönguleið frá Haukafelli að Fláajökli.
Gönguleiðin tengir saman svæði þriggja skriðjökla, Fláajökuls, Heinabergjökuls og Skálafellsjökuls, sem saman mynda Mýrajökla. Leiðin nær frá Haukafelli að Skálafelli og er um 22 km að löng. Alls þurfti þrjár göngubrýr og eitt ræsi til að opna leiðina fyrir gangandi vegfarendum og tekur um 8-10 klukkustundir að ganga hana. Upplýsingaskilti eru við upphaf gönguleiðarinnar, en auk þess er boðið upp á snjallleiðsögn þar sem eru m.a. veittar upplýsingar um gróðurfar, jarðfræði og jökla. Að auki eru þar upplýsingar um sambýli manns og jökuls sem frá upphafi búsetu hefur einkennt svæðið okkar, ríki Vatnajökuls.
Fjölmennt var við opnunar­hátíðina og nutu ungir sem aldnir samverunnar í blíðskapar­veðri. Vatna­jökulsþjóðgarður bauð upp á útileiki fyrir börnin og veitingar voru í boði hollvinasamtakanna Vinir Vatnajökuls. Auk þess að grilla pylsur fengu börnin að spreyta sig á að grilla vefjubrauð á trjágrein yfir grillinu og baka súkkulaðimúffur í appelsínuberki. Vakti bæði mikla lukku hjá ungu kynslóðinni.
Verkefnið hlaut ríkulegan fjár­styrk hjá Framkvæmda­sjóði Ferðamannastaða, en án þess hefði það ekki orðið að veruleika. Auk þess hefur ferðaþjónustuklasinn Ríki Vatnajökuls gefið út kynningarbækling um leiðina með fjárstyrk frá Vinum Vatnajökuls og Vatnajökulsþjóðgarður lagt inn ómælt vinnuframlag og veitt faglega ráðgjöf við framkvæmdina. Færum við þessum aðilum okkar bestu þakkir fyrir framlag sitt.
Fyrir hönd Sveitarfélagsins Hornafjarðar vil ég þakka öllum þeim sem komu og áttu með okkur góða stund í Haukafelli. Vona ég að bætt aðgengi að þessu fallega svæði hvetji bæði heimamenn og gesti til að reima á sig gönguskóna og upplifa allt það sem gönguleiðin Mýrajöklar hefur upp á að bjóða

Árdís Erna Halldórsdóttir
atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar.