Fenrir Elite- Crossfit

0
781

Fenrir Elite er lítil líkamsræktarstöð hér á Höfn í Hornafirði og heldur úti fjölbreytta hóptíma sem byggir á aðferðafræði CrossFit‘s. Fenrir Elite byrjaði starfsemi sína vorið 2021 í eins bíla bílskúr við Silfurbraut 5 og er í dag á besta stað í bænum, húsnæði Skinneyjar-Þinganess í engri annarri en gömlu kaffistofunni í skemmu 1. Fenrir Elite á þrjá viðurkennda CrossFit Level 1 þjálfara þau Erlend Rafnkell, Heklu Natalíu og Lenu Hrönn Marteinsdóttur ásamt einum CrossFit Level 2 þjálfara Ásgrími Arasyni. Þar til viðbótar eru tveir meðlimir Fenris, Pálmi Freyr Gunnarsson og Gunnar Örn Marteinsson að sækja CrossFit Level 1 þjálfara réttindin sín, svo Fenrir Elite státar bráðum af sex þjálfurum með réttindum viðurkennd og kennd frá CrossFit inc.

Hvað er CrossFit?
Eða ÞverHreysti á góðri íslensku. CrossFit var stofnað árið 2000 og er keppnis íþrótt en fyrst og fremst alhliða líkamsrækt fyrir ALLA. CrossFit byggir á stöðugum fjölbreyttum gagnlegum grunn hreyfingum teknum á háu tempói. Grunnhreyfingar líkamans eru hreyfingar sem líkaminn okkar er byggður til að gera og þess vegna nýtist hann okkur í daglegu lífi, við vinnu, húsverk, leik við börn og bara allt!

Ef að við rýnum í orðið Cross – Fit þá er CrossFit blanda af hinum ýmsu íþróttum sem eiga sér langa sögu og við flest öll þekkjum. Við blöndum saman eða „krossum“ saman íþróttum eins og frjálsum, hlaupi, sundi, fimleikum, róðri, klifri, kraftlyftingum og ólympískum lyftingum sem dæmi. Æfing dagsins er aldrei eins. Einn daginn blöndum við saman fimleikum, hlaupi og lyftingum. Hinn daginn blöndum við saman róðri, ólympískum lyftingum og klifri og svo koll af kolli. Stöðugt fjölbreytt. Gagnlegar grunnhreyfingar eru t.d. hnébeygja þar sem við setjumst upprétt með rassinn niður í gólf. Hreyfingin að setjast niður og standa upp af klósettinu, deadlift þar sem við gefum aðeins eftir í hnjánum og beygjum okkur með beint bak niður í gólf. Þegar við sækjum þungan hlut frá gólfinu, eða þegar við erum að flytja eða vinna önnur verk. Axlapressur þar sem við ýtum tilteknum hlut upp fyrir haus hvort sem það er stöng, handlóð, ketilbjalla eða í raun hvað sem er, sama hreyfing og við gerum þegar við erum að ganga frá einhverjum hlut upp í efstu hillu heima. Ég gæti lengi haldið áfram. Hátt tempó er algjört lykilatriði en þegar að við tökum æfingar hverjar sem þær eru á háu tempói í stuttan til miðlungs tíma fer af stað einhver mögnuð hormóna svörun í líkamanum okkar sem skilar okkur þessum árangri í fitu brennslu og vöðvauppbyggingu.Að því sögðu snýst CrossFit ekki einungis um að brenna fitu, byggja vöðva eða líta vel út. Langt frá því. Við miðum ekki árangurinn okkar út frá ummáli á mitti, tölum á vigt eða hvernig við lítum út í speglinum heldur með árangri á æfingum, er ég að bæta tímann minn? Er ég að gera meira á skemmri tíma? Er ég að hlaupa hraðar? Er ég að lyfta þyngra ? líður mér vel á æfingum ? Allt þetta og mikið meira.

Við einblínum á góða tækni og að framkvæma hreyfingarnar rétt og á sem skilvirkastan hátt áður en við förum að gera þær hratt til að fyrirbyggja meiðsli og auka afkastagetu. Eins og áður kom fram stundum við fjölbreyttar æfingar og það á líka við með útfærslur á æfingum, við tökum á háu tempói, lágu tempói og allt þar á milli. Við gerum æfingarnar hægt, til að geta gert þær á endanum hratt og vel. Við byrjum að hlaupa hægt, til að geta á endanum hlaupið hratt. Við tökum hnébeygju eins djúpt og við getum, þangað til að við getum á endanum farið eins djúpt og líkamin er hannaður til að gera. Með tilkomu nútíma klósetts og stóla þurftum við ekki lengur að setjast í djúpa hnébeygju og á ákveðnum aldri sem börn hættum við alveg að gera það og þar af leiðandi misstum við þann eiginleika. Sem betur fer getum við unnið hann upp aftur með því að koma okkur í þessar stöður, meira og meira á hverjum degi. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er líkamin okkar hannaður til að hreyfa sig og það daglega.

Í lokin langar mig að segja að Fenrir Elite er ekki líkamsræktarstöð eða CrossFit er ekki líkamsrækt heldur samfélag fullt af einstaklingum með sameiginleg markmið, að verða betri útgáfa af sjálfum sér í dag en í gær. Krafturinn er í hópnum og þannig verða galdrarnir til, við ýtum hvort öðru áfram og pikkum hvort annað upp þegar við þurfum á því að halda.

Ég mun aldrei gleyma því þegar einn sagði við mig „Ég hef oft byrjað í ræktinni og reynt að koma mér af stað í hreyfingu en alltaf dottið út. Ég byrjaði í CrossFit því ég vildi létta mig og styrkja mig en ég hélt áfram út af andrúmsloftinu á æfingum, samstöðunni í hópnum og samfélaginu“. Ég held að margir tengi við fyrstu orð hans og er það einmitt vandinn. Við byrjum oft að reyna gera eitthvað í okkar málum en að gera eitthvað í 2 vikur, 1 mánuð eða 3 mánuði og fara síðan aftur í sama gamla farið skilur lítið eftir sig. Lykillinn er í stöðugleikanum, finndu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg, gefur þér tilgang sem þú getur þar af leiðandi stundar til lengri tíma! Helst til æviloka. Þá fyrst sérðu varanlegan árangur.

Hvernig byrja ég að æfa hjá Fenrir Elite? Þú byrjar á að fara á grunnámskeið/byrjendanámskeið Fenris þar sem farið er yfir aðferðafræði CrossFit‘s, helstu grunnhreyfingar, líkamsþyngdaræfingar, æfingakerfi og fleira! Útskrifast þar og heldur svo áfram í framhaldstíma þar sem boðið er upp á fjölbreytta tíma, til að nefna : WOD, styrk, úthald, ólympískar lyftingar og mobility/liðleika. Best er að hafa samband í gegnum Instagram reikning Fenris :
fenrirelite eða Email : fenrirelite@gmail.com

-Erlendur Rafnkell Svansson,
Stofnandi Fenrir Elite