Eldri Hornfirðingar hefja starf sitt

0
606

Í næstu viku fer starfsemi Félags eldri Hornfirðinga í gang að hluta eftir langt og óvenjulegt sumarhlé. Þar sem mikil óvissa hefur ríkt um ástandið í þjóðfélaginu hefur ekki verið gerð nein breyting á vetrardagskránni svo ákveðið er að Vetrardagskrá 2019-2020 gildi til áramóta.
Það sem fer því í gang núna er: Gönguferðir frá Ekru, líkamsrækt í Ekru, vatnsleikfimi í Sundlauginni og samverustund annan hvern föstudag. Einnig ýmislegt frjálst félagsstarf eins og boccia, spilamennska (þó ekki félagsvist), skák, pílukast, snóker, þythokkí, handavinna og smíðar.
En það er auðvitað undir hverjum og einum komið hvort hann treystir sér til aðtaka þátt í starfi félagsins núna vegna covid-19.
Ekki verður hægt að vera með vöffluböll eða félagsvist að svo stöddu. Og því miður þurfti að fella niður dagsferðina í haust.
Gleðigjafar geta hafið æfingar þegar þeir telja það fært samkvæmt sóttvarnarreglum.
Stefnt er að því að halda haustfund félagsins 19. september og verður það þá auglýst í næsta blaði.
Það hefur verið dálítið snúið fyrir nýja stjórn að taka við félaginu á þessum óvissutímum en haft hefur verið samráð við sóttvarnalækni Suðurlands og farið verður eftir öllum reglum eins og kostur er. Vonandi fer þetta allt að lagast. Munið bara sóttvarnarreglurnar: Nú er það 1 meters reglan, handþvottur og sprittun.

Guðbjörg Sigurðardóttir formaður