Eldar matinn í fermingarveisluna sjálfur

0
163

Kristjárn Reynir Ívarsson er ungur maður sem er margt til lista lagt. Hann er áhugaljósmyndari og tekur aðallega myndir af fuglum. Það gerir hann með afa sínum, vanalega fara þeir út í Ósland til þess að taka myndir af æðakollum og öndum. Hann náði mynd af hvítum skógarþresti á síðasta ári sem hann segir sjaldgæfasta fuglinn sem hann hefur fest á filmu. Þegar Kristján er ekki að taka myndir, veiða, spila fótbolta, úti á golfvelli eða leika við vini sína finnst Kristjáni gaman að elda mat. Hann byrjaði mjög ungur að prófa sig áfram í bakstri og segir móðir hans Anna Björg hafa verið viss um að hann hefði orðið bakari. Nú hefur hann skipt um gír og fært sig yfir í matargerð. Kristjáni finnst skemmtilegast að elda kjöt sem hann gerir mikið af með pabba sínum Ívari, en þeir eru báðir miklir kjötmenn. Kristján Reynir fermist í sumar eins og siður er á 14 árinu. Mörg fermingarbörn gleðjast yfir þessum degi af mörgum ástæðum en iðulega vegna þess að á fermingardaginn eru gefnar gjafir. En Kristján er á öðrum buxum hvað það varðar. Hann er spenntastur yfir því að fá að elda fyrir veislugestina sína. Kristján tekur virkan þátt í undirbúningi veislunnar, með hjálp foreldra sinna. Hann er búinn að ákveða matseðil sem ekki er af verri endanum og ætlar að elda matinn sjálfur að mestu leyti. Hann ætlar að bjóða veislugestum upp á: Folaldaspjót, smá hamborgara, hann ætlar að grafa folald, reykja gæs og svartfugl ásamt því að útbúa ístertu, kransaköku og fermingaköku. Hann hefur aldrei eldað fyrir slíkan fjölda af matargestum enda búast þau við í kringum 90 manns í veisluna. Kristján segist þó ekkert vera stressaður fyrir því og að hann ætli að undirbúa sig vel og er þegar byrjaður. Kristján segist hafa lært að elda með pabba sínum og með því að horfa á matreiðsluþætti eins og BBQ kónginn og Lækninn í eldhúsinu. Skemmtilegast finnst honum að elda nautasteik sem jafnframt er uppáhalds maturinn hans. Hann notast mest við uppskriftir sem hann finnur en gerir þær að sínum til að mynda sendi hann veglega uppskrift í Eystrahorn 9.mars síðastliðinn sem hann útfærði ásamt pabba sínum. Kristján stefnir á að verða kokkur eins og staðan er núna. Hver svo sem framtíðin verður er hún björt fyrir þessum efnilega unga manni. Eystrahorn þakkar Kristjáni fyrir spjallið og óskar honum til hamingju með fermingardaginn sem framundan er og að veislugestum hans verði að góðu, þeir eiga sannkallaða veislu í vændum.