Einlægur Önd

0
780

Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl gaf nýverið út sína áttundu skáldsögu, Einlægur Önd. Hann er væntanlegur til Hafnar í vikunni í fríðu föruneyti íslenskra rithöfunda. Eystrahorn „sló á þráðinn“ til Eiríks og „tók á honum púlsinn“, einsog heitir.

Nú er nýja bókin þín ekki ævisaga þóttú gerir eiginpersónu þína að aðalpersónu í bókinni, og sjálfsagt er hún ekki heldur skáldsaga. Hvað er hér á ferðinni?

Einlægur Önd er ævisaga eftir Eirík Örn, en Eiríkur Örn er skáldsaga. Sagan er eftir rithöfundinn Eirík Örn og fjallar um rithöfundinn Eirík Örn – það er eitt og annað sem þeir eiga sameiginlegt en það er einnig ýmislegt sem skilur þá að. Hann er útgáfa af sjálfum mér, eða tilgáta um sjálfan mig – hvernig gæti verið fyrir mér komið ef ég hefði minni kontról á brestum mínum. Þessi Eiríkur Örn bókarinnar varð ærulaus af skrifum sínum og hegðun – honum var eiginlega „slaufað“ – og sekkur í kjölfarið í djúpa skömm sem hann kann ekkert að leysa úr. Þegar honum býðst svo að kenna ritlistarnámskeið í gegnum netið, á vegum norsks fyrirtækis, þykist hann himinn hafa höndum tekið alveg þangað til einhver (hann grunar nemendur sína) kastar múrstein innum gluggann hjá honum með þeim skilaboðum að honum sé hollast að draga sig aftur í hlé. Það sé mikil ábyrgðarstaða að kenna ritlist og ekki fyrir ærulausa menn. Þá flýr Eiríkur Örn inn í skáldskap sinn og byrjar að skrifa sögu ærulausa rithöfundarins Felix Ibaka í landinu Arbítreu þar sem smánun er bundin í mjög sérstakar venjur – þar sem fólki er uppálagt að bera múrsteina, sem standa á brettum á öllum götuhornum, að húsum hinna ærulausu á hverjum morgni, og hinum ærulausu er gert að bera múrsteinana aftur út á horn. Felix hefur sjálfur flúið inn í sínar eigin bókmenntir og vinnur að fræðiriti um sögu og heimspeki skammar og smánunar í Arbítreu, með önnur Evrópulönd til samanburðar.

Þetta eru þannig sögur innan í sögum sem allar eiga það sameiginlegt að skoða bæði skömm og smánun og samband sannleika, lyga og skáldskapar. Í sjálfu sér er þetta skáldsaga samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum – það vill bara til að þær reglur eru dálítið sveigjanlegar. Framvinda sögunnar er skáldskapur þótt ég hafi hent sjálfum mér inn á sögusviðið.

Hvernig hefur þetta „fordæmalausa“ ástand síðustu missera markerað, a, list þína – b, afkomulega framsetningu hennar?

Ætli það beini ekki öllum svolítið í sama farveg? Við innbyrðum sama veruleika og skilum honum svo af okkur eftir meltingu. Sem betur fer eru meltingarkerfi mismunandi listamanna ólík. Raunar sýnist mér afar lítið um sérstakar „covidbókmenntir“ í ár – einsog gerðist strax eftir hrun – lítið um bækur sem eru með sinn aðalfókus á veirunni. Þess í stað fær veiran bara að „fljóta með“ í ljóðunum, í krimmunum, ástarsögunum og öllu hinu. Ég gæti líka best trúað því að við værum öll aðeins uppteknari af óljósum óhugnaði – samfélagið hefur náttúrulega ekki staðið í líkum upp fyrir haus líkt og gerðist í spænsku veikinni, vegna þess að við höfum getað komið í veg fyrir það, en ástandinu fylgir þessi viðstöðulausa nagandi óvissa sem markar upplifun manns og skynjun og þar með list og sköpun.

Þetta hefur farið illa með tekjurnar. Ég ferðaðist mikið á bókmennta- og ljóðahátíðir um allan heim og það hefur auðvitað allt farið til andskotans. Kannski horfir það til betri vegar – ég fór í mína fyrstu þannig ferð í 20 mánuði bara um daginn. Í sjálfu sér hafa bæst við alls konar streymis- og vídjógigg en það er bæði vinna sem maður þurfti að læra alveg frá grunni og svo er það bara merkilega tímafrekt og maður fær enga innspýtingu á móti, hittir engan, inspírerast nákvæmlega ekki neitt af því að sitja fyrir framan myndavélina heima í stofu, einsog maður myndi gera af því að hitta fólk og sjá hluti. Og kannski er það þannig með allt í covid – þessi nýi veruleiki er í senn rosalega spennandi og alveg sjúklega leiðinlegur.

Hvaða gildi hefur það fyrir stórborgar/metropolitaníska rithöfunda að koma í smáþorp og lesa upp?

Þú þyrftir eiginlega að spyrja stórborgarhöfundana að þessu. Ég er bara Ísfirðingur. En það hefur heilmikla þýðingu fyrir mig að komast um landið, ekki síst á austurfjórðunginn sem er svo langt í burtu. Leiðin liggur svo oft suður – reyndar svo oft að það er eini staðurinn í veröldinni þar sem ég fæ aldrei borgað fyrir að koma. Ef ég fer til Rio eða Barcelona, Tálknafjarðar eða Egilsstaða, fæ ég borgaða ferðina, uppihald, gistingu og yfirleitt laun. Fyrir upplestur í Reykjavík fær maður laun í svona þriðja hvert skipti og ég hef aldrei fengið ferðina eða gistinguna. Ég las síðast upp á Höfn í Hornafirði fyrir 18 árum með Nýhil í frekar alræmdri ferð um landið. Við höfðum lagt í vana okkar að skilja eftir okkur sviðna jörð í sveitarfélögum landsins en brá nokkuð í brún þegar við komum til Hafnar beint í kjölfar Humarhátíðar – sennilega á sunnudagsmorgni. Það var einsog það hefði fallið partíkjarnorkusprengja á bæinn, tómir bjórkassar út um allt, flaksandi yfirgefin tjöld og rænulitlir utanbæjarmenn að leita að bílunum sínum. Við Ófeigur Sigurðsson fórum á barinn og pöntuðum okkur bjór og ég gleymi aldrei augnaráðinu sem afgreiðslukonan sendi okkur. Það var einsog hún vildi spyrja hvort þessu ætlaði aldrei að linna. Aldrei þessu vant ákváðum við að lesa bara upp í rólegheitunum og læðast svo úr bænum aftur. Það var engin ósviðin jörð eftir fyrir okkur að svíða. En ég er mjög spenntur að koma aftur og löngu hættur að svíða jarðir og brenna brýr – nú vona ég bara að nóvember verði okkur ljúfur og það verði flogið, fyrst suður og svo austur.