Brasilísk að uppruna en íslendingar í hjartanu

0
156

Að flytja til nýs lands er merkileg lífsreynsla, það felur í sér að skilja eftir hið kunnuglega og umfaðma hið óþekkta. Eystrahorn settist niður með Luiz Carlos da Silva og Alessandra Kehl sem fluttu til Íslands frá Brasilíu og hafa búið á Hornafirði í áratug. Luiz starfar sem tónlistarkennari við Tónskóla A-Skaft og Alessandra starfar á hjúkrunarheimilinu. Þau deila hér með okkur reynslu sinna af því að flytja til Íslands og þeirra miklu andstæðna á milli lífsins í Brasilíu og á Íslandi.

Ferðalag þeirra til Íslands hófst á samtali við frænda Luiz, sem hafði verið búsettur á Akureyri og hafði lengi lofað Ísland sem fjölskylduvænt og gott land. Hjónin voru þá bæði í námi og vinnu í Brasilíu sem tók mikinn tíma og orku. Luiz hafði lagt tónlistina á hilluna um tíma vegna anna og var farinn að langa að sökkva sér í hana aftur. Hvattur af frænda sínum, sendi hann ferilskrár til tónlistarskóla á Íslandi og fékk jákvæð viðbrögð frá Hólmavík og Hornafirði. Luiz segir vinaleg og upplýsandi samskipti við Jóhann Morávek, skólastjóra Tónskólans hafa verið fyrsta merkið um að Hornafjörður væri rétta valið, en það sem gerði útslagið var þegar þau “googluðu” staðina tvo, og fundu þau strax fyrir sterkri tilfinningu um að Hornafjörður yrði þeirra næsta heimili.

Fyrir flutning lifðu Luiz og Alessandra annasömu lífi í Brasilíu. Í landi þar sem lífið er hraðvirkt og krefjandi fundu þau sig í stöðugri baráttu við vinnu og nám og lítinn tíma til þess að sinna fjölskyldu- og einkalífi. Þau segja atvinnumarkaðinn í Brasilíu erfiðan og samkeppnina mikla. Þar eru mjög margir um hvert starf, sem þýðir að fólk þarf að keppast við að bæta við sig reynslu og menntun til að skara fram úr.

“Þú verður í rauninni að vera ofhæfur ef þú ætlar að eiga möguleika, það er ekki nóg að fara bara í nám og láta þar við sitja, þú verður stanslaust að vera á tánum og bæta við þig þekkingu og kunnáttu”.

Hjónin unnu frá klukkan fimm eða sex á morgnanna til miðnættis alla virka daga vikunnar og áttu því lítinn gæðatíma með börnum, fjölskyldu og fyrir sig sjálf. Munurinn á lífinu í Brasilíu og á Íslandi er mikill. Í Brasilíu er hraðinn mikill, vinnutímar langir og lítill tími fyrir fjölskylduna. Á meðan að hér á Íslandi er þessi ríka áhersla á fjölskyldulíf, og friðsælt líf, segja hjónin. Í stað iðandi stræti Brasilíu er æðruleysi íslenskra bæja eins og Hornafjarðar það sem þau þráðu, svo þau slógu til og fluttu sig og börnin sín yfir höf og heimsálfur til að freista gæfunnar og vilja nú hvergi annars staðar vera.

Við komuna til Hornafjarðar var Luiz og fjölskyldu hans fagnað með hlýju og vinsemd úr samfélaginu. Hins vegar var það ekki án áskorana, en Alessandra sem þekkti ekkert annað en að vera alltaf á fullu, hvort sem það var í skóla eða vinnu, var ekki með vinnu fyrsta árið, sem reyndist henni erfitt. Hún segir það þó allt hafa verið þess virði og hún vilji hvergi annars staðar vera, hún sé mjög ánægð í starfi sínu hér en líka með frelsið og tímann sem hún hefur þess á milli, sem þau höfðu minna af í Brasilíu.
Skólaumhverfið gegndi mikilvægu hlutverki við að hjálpa börnum þeirra að aðlagast tungumálinu og menningu, sem Luiz segir hafi verið ómetanlegt. Reyndar segja þau að þeim hafi verið tekið vel á öllum stöðum frá fyrsta degi, bæði í vinnu, skóla, vinum og öðrum í samfélaginu. Í dag finnst þeim þau tilheyra og kunna að meta örugga og nærandi umhverfið sem Hornafjörður býður upp á.

Eftir áratug á Íslandi finnur Luiz fyrir djúpri tengingu við landið og fólkið. Þó hann sakni hinnar lifandi matarmenningar í Brasilíu, trúir hann því staðfastlega að Ísland sé hans sanna heimili. Flutningurinn hefur ekki aðeins breytt lífi hans heldur einnig veitt fjölskyldu hans öryggi. “Börnin geta farið út að leika og ég þarf ekki að vera hræddur um að þau verði bitin af snák, eða könguló eða öllu hinu sem er hættulegt þar”.

Luiz eins og áður sagði starfar sem tónlistarkennari og hefur unun af. Hann segir kennslu vera meira en bara að miðla þekkingu, kennarinn þarf að vera svo margt annað en bara leiðbeinandi fyrir nemendur sína, hann segir að það snúist ekki aðeins um að kenna kunnáttu heldur einnig um að byggja upp traust og sjálfstraust hjá nemendum sínum. Sum barnanna sem hann hittir skorti sjálfstraust í tónlistarnnáminu sem hann leggur mikla áherslu á að byggja upp. Hann vill benda foreldrum á að segja börnum sínum að þau séu nóg og að þau geti gert allt sem þau langar til, sjálfstraustið er stór hluti af því að ganga vel í hvers konar námi segir Luiz.

Að lokum vilja þau koma því á framfæri að fólk frá Brasilíu talar hátt, þau segja fólk stundum halda að þau séu að rífast þegar þau tala á sínu móðurmáli (portúgölsku) en það sé bara hvernig þau tala. Svo ef þið heyrið háværa portúgölsku þá eru þau að öllum líkindum bara að tala saman og allir í góðum gír.

Eystrahorn þakkar Luiz og Alessandra fyrir áhugavert spjall og áminninguna um það að stíga inn í hið óþekkta getur leitt til óvæntra verðlauna.