Bekkir á gönguleiðum á Hornafirði

0
2241

Verkefnið Brúka bekki var hrundið af stað árið 2010 af Félagi sjúkraþjálfara á Íslandi þegar félagið varð 70 ára. Sjúkraþjálfarar ákváðu þá að fara af stað með samfélagsverkefni sem hvatningu til aukinnar hreyfingar og til hagsbóta fyrir almenning. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að eldra fólk stundi hæfilega hreyfingu sér til heilsubótar. Niðurstöður þessara rannsókna sýna að með því að stunda reglubundna hreyfingu helst eldra fólk hressara og heilbrigðara lengur, er lengur sjálfbjarga og getur dvalið lengur heima. Það er því allt til þess vinnandi að hvetja eldra fólk til að hreyfa sig reglulega, m.a. með því að ganga úti daglega. Tvær íslenskar rannsóknir hafa leitt í ljós að eitt það helsta sem hindrar eldra fólk til göngu sér til heilsubótar, er skortur á bekkjum. Hálka er önnur títtnefnd hindrun. Einnig kemur fram í nýbirtri doktorsrannsókn að eldra fólk á Íslandi hreyfir sig mjög lítið.

gönguleiðir
Sjúkraþjálfarar á Hornafirði ásamt HSU Hornafirði og Félagi eldri Hornfirðinga fór af stað með verkefnið í desember 2016 þegar erindi var sent inn til Bæjarráðs Hornafjarðar. Óhætt er að segja að verkefnið fékk mjög góðar viðtökur hjá sveitarfélaginu, svo góðar að sveitarfélagið hefur útbúið sérhannaða bekki með þarfir eldra fólks í huga en bekkirnir voru hannaðir af Birgi Árnasyni sem þá var bæjarverkstjóri hjá sveitarfélaginu. Nú í vor síðastliðið voru bekkirnir settir niður á þrjár mislangar gönguleiðir með 200-300m millibili. Gönguleiðirnar má sjá á á korti sem er aðgengilegt hér á heimasíðu sveitarfélagsins. Hér er slóðin: http://www.hornafjordur.is/thjonusta/ithrottir-og-tomstundir/heilsueflandi-samfelag/.
Formleg vígsla á gönguleiðunum fór fram laugardaginn 30. september í tengslum við haustfund Félags eldri Hornfirðinga en þá afhenti Björn Ingi Jónsson samfélaginu bekkina með formlegum hætti. Vil ég fyrir hönd allra sem komu að verkefninu þakka frábærar móttökur og vona að bekkirnir verði til þess að eldra fólk nýti þá sér til heilsueflingar.

Matthildur Ásmundardóttir, sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri HSU Hornafirði