Árin mín í Framtíð

0
219

Þegar ég var beðin um að rifja upp veru mína í Slysavarnadeildinni Framtíðinni var mér það ljúft og skylt þar sem ég hef verið félagi þar í 55 ár. Ég gekk í deildina árið 1968 en þá var móðir mín Ingibjörg Guðmundsdóttir nýlega orðin formaður og stjórnaði hún deildinni af miklum dugnaði og hafði gott lag á að fá alla til að starfa með sér. Hún gegndi formannsembættinu til dánardags 1985.
Margir stjórnarfundir og aðrir nefndarfundir voru haldnir heima hjá henni og var gaman að fylgjast með því. Þá höfðu deildirnar hér ekkert hús til umráða. Stærri fundir voru haldnir í Sindrabæ, uppi í litla salnum.
Svo var ráðist í að byggja Slysavarnahúsið og þótti mikill dugnaður að ráðast í það með Björgunarfélagi Hornafjarðar. Allt hugsanlegt var gert til að safna peningum og síðan hafist handa við verkið. Margir félagar lögðu þar hönd á plóg og er mér sérstaklega minnisstætt þegar við konurnar hlóðum veggina undir stjórn Eymundar Sigurðssonar, þá sá formaður deildarinnar um að passa öll börnin á meðan. Húsið var síðan afhent Slysavarnafélagi Íslands til eignar 1977. Síðan er búið að byggja tvisvar sinnum við húsið og alltaf vantar okkur meira pláss því tækjakostur breytist, eykst og stækkar.

Fastir liðir í fjáröflun deildarinnar voru sumardagurinn fyrsti og síðasti vetrardagur, þá var alltaf haldið ball og jafnvel bögglauppboð, barnaskemmtanir og svo kaffisalan á sjálfan sumardaginn fyrsta. Margar voru líka samlokurnar sem við útbjuggum og seldum á öllum böllum í Sindrabæ.
Mikil afmælishátíð var haldin þegar deildin varð 30 ára 1984. Æfðir voru leikþættir og var formaðurinn leikstjóri, stofnaður var slysavarnakór sem kom oft fram á skemmtunum, kaffiveisla mikil og gott ball í lokin. Deildin fékk forláta grip frá Björgunarfélagi Hornafjarðar, klukku með loftvog og hitamæli. Á klukkunni voru tveir skildir, annar með merki Slysavarnafélagi Íslands og hinn merktur deildinni. Þessi klukka er enn í húsi félagsins.
Ullarnærföt voru gefin í alla báta á Hornafirði og man ég að ef bátur var seldur burt voru þau látin fylgja bátnum en bætt við ef kom nýr bátur.
Þegar björgunarskipið Ingibjörg kom til Hornafjarðar varð ég þess heiðurs aðnjótandi að skíra það eftir móður minni og þótti okkur í fjölskyldunni henni sýndur mikill heiður og erum ævinlega þakklát fyrir það.
En allt er breytingum háð. Nú er félagsstarf með öðrum hætti, þar má telja línusölu, kaffisölu, þrif á ýmsum íbúðum, ýmsar kannanir á vegum Landsbjargar, hjálmgjafir til barna í 5. bekk ofl. Svo er salurinn okkar leigður út af og til eftir þörfum. Allt er gert til að afla peninga og nú verður þörfin mikil.
Ég er stolt af því fólki sem er í fararbroddi fyrir byggingu nýrrar Björgunarmiðstöðvar og það var ánægjuleg stund þegar við sameinuðust um að taka fyrstu skóflustunguna og gaman verður fyrir mig að horfa út um glugga á heimili mínu og sjá hana rísa. Ég fyllist stolti af ykkur.
Þetta er smá upptalning hvernig þetta var og er. Allt er þetta mikilvægt og örugglega ekki allt talið en þegar ég lít til baka er 30 ára afmælið mér minnisstæðast.
Ég er þakklát fyrir öll árin sem ég hef tekið þátt í starfi Framtíðarinnar, þar var ávallt góð samvinna og góður andi.
Ég óska Framtíðinni og Björgunarfélagi Hornafjarðar góðs gengis um ókomin ár og vona að bygging Björgunarmiðstöðvarinnar eigi eftir að ganga vel.

Guðbjörg Sigurðardóttir

Mynd/ Sveinn Sighvatsson formaður Björgunarfélagsins afhendir
Ingibjörgu klukkuna góðu

Mynd/ Ásgerður Arnardóttir varaformaður og Ingibjörg Guðmundsdóttir formaður við 30 ára afmælistertuna