Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

0
51

Prestar og viðbragðsaðilar komu saman í Hafnarkirkju á sunnudaginn en þá var alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa og var þess minnst í helgistund. Hér fyrir neðan má lesa hugvekju sem sr. Gunnar Stígur Reynisson flutti við helgistundina en búið er að staðfæra hana með því tilliti að allar tímasetningar séu réttar.

Hugvekja
Um helgina var alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessu viðfangsefni. Það hefur skapast hefð víða um land að koma saman og minnast. Viðbragðsaðilar standa fyrir táknrænum athöfnum víða um land þennan sunnudag og má sjá inn á heimasíðu Samgöngustofu auglýstar athafnir í Hnífsdal, Sauðárskróki Vestmannaeyjum og víðar.

En það sem þessi dagur stendur fyrir er viðkvæmur fyrir marga hér á landi, frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915, hafa þann 1. nóvember síðastliðinn, samtals 1608 einstaklingur látist í umferðinni. Enn fleiri slasast alvarlega, og margir þurft að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum. Vart er því til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni eða lent í slysi sjálfur. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð.

En svo geymir þessi dagur meira. Það gleymist stundum að þakka og hugsa til þeirra sem koma að slysum og þurfa á ögurstundu að hlúa að og bjarga fólki við oft mjög erfiðar aðstæður. Yfirleitt eru það vegfarendur sem fyrstir koma að slysi og standa frammi fyrir því vandasama verkefni að reyna að bjarga mannslífum. En í kjölfarið koma viðbragðsaðilar sem líka þurfa að vinna við björgun oft við afar erfiðar aðstæður og á þessum minningardegi var einmitt ætlunin að vekja athygli á þessu fólki. Það var því gaman að sjá alla þá viðbragðsaðila sem komu í kirkjuna og mörg þeirra í klæðnaði þeirra sem þau starfa fyrir, sem var vel við hæfi.

En viðbragðsaðilar, hverjir eru viðbragðsaðilar? Hverjir eru viðbragðsaðilar hér í sýslunni? Hvaða fólk er þetta? Þetta fólk er að finna um allt sveitarfélagið eða eins og Jón Garðar Bjarnason hefur oft sagt við mig: Við Hornfirðingar berum marga hatta. Og það er rétt. Vegna smæðar okkar þá gegnum við mörgum hlutverkum. En er það slæmt? Er slæmt að búa á fámennum stað? Það er hægt að svara því játandi og neitandi. Einhverjum finnst eflaust fámennið þrúgandi en í fjölmenni föllum við inn í fjöldann, getum leyft okkur að týnast. En í fámenninu þá er það mun erfiðara að fela sig en í fjölmenninu, okkur finnst allir vita allt um alla. En vegna smæðar okkar þá er erfiðara að falla þegar eitthvað kemur uppá því það er einhver sem grípur. Einhver sem við þekkjum, einhver sem við treystum. Þar sé ég styrk okkar. Styrkur okkar felst í smæðinni. Hattarnir okkar krossast og við þekkjum hvert annað. Smiðurinn er sjúkraflutningamaður, lögreglan foreldri besta vinar barnsins okkar og björgunarsveitarmaðurinn er kokkur og svo mætti lengi telja.

Þetta sýnir okkur líka að viðbragðsaðilarnir eru manneskjur. Manneskjur sem eiga fjölskyldur, eiga sér áhugamál. Finnst gaman að hlæja og hafa gaman. Viðbragðsaðilar eru mannlegar ofurhetjur sem gráta líka og finna til. Það er líka mikilvægt að hugsa til þess. Viðbragðsaðilar þurfa líka skjól. Þeir þurfa líka að fá að hvíla í örygginu. Og hvar er skjól, hvað er öryggi viðbragðsaðila? Jú, segja má að skjólin séu misjöfn eins og við erum mörg. Skjólið er nauðsynlegt því án þess slær hvirfilbylurinn okkur niður og það verður uppgjöf. En allajafna er öryggið mest hjá þeim sem standa okkur næst. Já öryggið er hjá þeim sem standa okkur næst. Fjölskylda – vinir, já þau sem eru okkur næst. Sumir leita einnig í trúna og það segi ég, presturinn og segjandi þessi orð í kirkju. En svo finna allir sína leið.

En um leið þurfum við að reyna að vera vakandi yfir þeim sem standa okkur við hlið. Ég sagði áðan um að við séum gripin þegar við föllum en þá þarf einhver að vera tilbúin að grípa. Það er þakkarvert að það er einhver til að grípa og ég minntist einnig á það hér að ofan að það vill stundum gleymast að þakka. Það gerðum við meðal annars í Hafnarkirkju um helgina. Við klöppuðum hvort öðru á bakið með nærveru okkar og samfélagi. Gott samfélag hjálpar, gott samfélag nærir. Við erum gott samfélag það segi ég með sanni. Við eigum ótrúlega gott fólk í öllum okkar viðbragðsaðilum og það er gott að þakka fyrir það. Þótt við, viðbragðsaðilar, höfum komið saman um helgina, megum við þurfa að koma saman sem minnst því þó tt það sé skrítið að segja það þá viljum við hafa sem minnst að gera, þurfa að hittast sem sjaldnast ekki nema bara til að brosa saman og gleðjast.

Já gleðjumst þegar við höfum tækifæri til. Þess bið ég í Jesú nafni. Amen.

Sr. Gunnar Stígur Reynisson