Allir geta iðkað yoga

0
544

Reglubundin hreyfing er nauðsynleg fyrir fólk á öllum aldri og undirstaða heilbrigðs lífs.  Með því að hreyfa sig reglulega bætum við líkamlega og andlega heilsu ásamt því að fyrirbyggja sjúkdóma.  Mikilvægt er að velja hreyfingu sem veitir ánægju og vellíðan. Sé skemmtileg og að iðkendur séu endurnærðir þegar tímanum er lokið.  Hér í Hornafirði erum við heppin því fjölmargt er í boði til að næra líkama og sál svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Í gegnum tíðina hef ég sjálf prufað og stundað ýmsar íþróttir en í dag á yoga hug minn allan.  Ég er með yogakennararéttindi, Hafyoga-réttindi, með diplómu í yoga nidra og bandvefslosun.  Á næstu mánuðum mun ég svo bæta við mig námi í yoga therapy training.

Yoga er eitt elsta form mannræktar enda talið að yoga sé um 6000 ára gömul hefð sem hefur áhrif á líkama, huga og sál. yoga er orð á sanskrít og merkir eining eða sameining og má segja að með því að iðka yoga sé verið að vinna heildrænt með manneskjuna.

Ávinningurinn af yogaiðkuninni er mikill fyrir líkama, tilfinningar og huga.

Í yoga virðum við mörkin okkar og erum ekki í neinni keppni. Í yoga erum við að æfa athyglina í að vera til staðar og safna lífsorku.

 Í Hornafirði býð ég upp á yoga í sal þar sem áhersla er lögð á styrktaræfingar sem byggjast á yogastöðum, teygjum, öndunaræfingum og slökun. Allt er þetta jafn mikilvægt.  Með yogastöðum  vinnum við með líkamsstöðu, styrk, liðleika, jafnvægi, úthald, einbeitingu og margt fleira. .  Iðkun yoga hefur áhrif á innkirtlakerfið, ónæmiskerfið, taugakerfið, öndunarkerfið og meltingarkerfið. Að auki eflist einbeiting og jafnvægi milli líkama og huga. Ávinningurinn af yogaiðkun er mikill og þykir bæta lífsgæði á ýmsan hátt en yoga getur, bætt meltingu, létt á verkjum, td. langvinnum verkjum og mígreni, stuðlað að betri svefngæðum, minnkað kvíða og þunglyndi ásamt því að auka styrk og liðleika.   Ég býð upp á yoga í Sjallanum tvisvar í viku. Í vetur hef ég líka boðið upp á yoga á Hrollaugsstöðum einu sinni í viku.

 Flestir eru anda of hratt og grunnt sem getur td. verið afleiðing streitu og álags.  En með markvissum öndunaræfingum má draga úr kvíða og streitu, höfuðverkjum og vöðvabólgu.  Þar sem hugurinn er mjög tengdur önduninni þá stjórnast andardrátturinn oft af því hugarástandi sem við erum í. Með því að gera öndunaræfingar getum við náð að róa hugann og stjórna honum betur og er  ávinningurinn því mikill.

 Yoga nidra er djúp slökun sem hefur margvísleg áhrif á líkama og sál.  Oft kallað jógískur svefn og er talið að 40 mín iðkun yoga nidra jafngildi 3-4 tíma svefni. Í yoga nidra liggur iðkandinn á dýnu með teppi og er leiddur í djúpa slökun.  Hentar ákaflega vel á okkar tímum þar sem hraður lífstíll, streita og álag er oftar en ekki viðloðandi. Helstu áhrif eru djúpslökun á taugakerfið, gott fyrir þá sem eiga erfitt með svefn, upplifa kulnun, kvíða eða þunglyndi.  Slakar á hjarta og vöðvum, léttir á verkjum og eykur jákvæðni almennt.  Streita getur verið orsök margra sjúkdóma en margir hafa fundið fyrir bættri heilsu með því að iðka yoga nidra. Ég er með yoga nidra einu sinni í viku í Sjalla.

Í Hafyoga eru yogastöður gerðar í vatni en  hreyfing í vatni er auðveldari og fer mjög vel með líkamann. Vatnið heldur utanum iðkandann, styrkir og eflir. Hentar til dæmis fólki með stoðkerfisvandamál, gigt og fólki með mikla streitu, kvíða og þunglyndi og fólki í kulnun.  Dásamleg hreyfing fyrir ófrískar konur. Í lauginni njótum við þess líka að fljóta en slík slökun er virkilega nærandi. Endum tímana í heitum potti þar sem við gerum öndunaræfingar og slökum ennþá meira og dýpra á. Ég er með tíma í sundlaug Hafnar einu sinni í viku.

Yoga er frábær leið til heilsuræktar og hentar öllum, sama á hvaða aldri, sama í hvaða formi einstaklingar eru. Allir geta iðkað yoga og yoga er fyrir alla hvort sem þú ert lítill eða stór, liðugur eða stirður, öll kyn, aldna, unga, já fyrir alla sem vilja bæta heilsuna og lífsgæðin. Það er algengur misskilningur að iðkendur þurfi að vera liðugir og í góðu formi.  Það er td. hægt að iðka yoga í stól fyrir þá sem eiga erfitt með að fara niður á dýnuna. Tímarnir mínir henta öllum bæði tímarnir í sal og í sundlauginni. Yoga er einnig frábær viðbót við aðra íþróttaiðkun eins og t.d. hlaup og boltaíþróttir. Hægt að fá einkatíma fyrir hópa og einstaklinga. Ég hef þá trú að yoga sé ein besta leiðin til að hlúa að líkama og sál. Ég hvet alla sem hafa áhuga á að prófa að hafa samband við mig eða aðra yogakennara

því það er aldrei of seint að byrja og yoga gæti komið þér á óvart.  . 

Ragnheiður Rafnsd, hjúkrunarfræðingur og yogakennari.