Aldrei of seint að byrja

0
458

Í haust ákvað velferðarsvið Sveitarfélags Hornafjarðar að fara í tilraunaverkefni í samstarfi við Kolbrúnu Björnsdóttur í Sporthöllinni og bjóða upp á námskeið sem kallast Heilsuþjálfun60+ sem hefur fengið góðar viðtökur. Haldinn var kynningarfundur í lok september 2021 og var hann nokkuð vel sóttur. Fundum við fyrir mikilli þörf hjá ákveðnum hópi á þessari þjónustu og var ákveðið í kjölfarið að bjóða upp á Heilsuþjálfun 60+ í Sporthöllinni tvisvar í viku í 6 mánuði gegn vægu gjaldi eða 1500 kr. á mánuði. Einnig er boðið upp á ýmsar mælingar samhliða þjálfuninni.

Góð þátttaka og notaleg stemmning

Kolbrún Björnsdóttir rekstrar­aðili Sporthallarinnar, hefur alfarið séð um þjálfunina og er mikil ánægja með hennar framlag í þessu verkefni. Að hennar sögn hefur skapast yndisleg stemmning og eru um 15-20 manns sem sækja æfingarnar.

Ennþá hægt að taka þátt

Það er nóg eftir af námskeiðinu og opið fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja og prófa æfingar. Við hvetjum alla áhugasama 60+ til að hafa samband við Kollu í Sporthöllinni eða Sindra Ragnarsson, sindri@hornafjordur.is.
Í anda heilsueflandi samfélags er áhersla á að hlúa vel að heilsu íbúa sveitarfélagsins og mæta kröfum um þjónustu, og úrræði er snúa að líkamlegri sem og andlegri heilsu og vellíðan einstaklinga. Aukinn þrýstingur hefur verið frá eldri borgurum um að bæta slíka þjónustu.

Fyrir hönd velferðarsviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar,
Sindri Ragnarsson