Af hverju ættu ungmenni að fara í FAS?

0
477

Í litlu bæjarfélagi eins og Höfn er mikil blessun að hafa starfandi framhaldsskóla. Við útskrift úr grunnskóla standa ungmenni mörg hver frammi fyrir erfiðu vali. Hvort eiga þeir að vera heima og fara í FAS eða leita út fyrir sýslusteinana miklu á Skeiðarársandi og í Hvalnesskriðum? Ritstjórar þessa blaðs hafa allir staðið frammi fyrir þessu vali. Okkur fannst við ekki vita nóg um skólakerfið í FAS. Nú erum við aldeilis reynslunni ríkari og getum frætt ungmenni Hornafjarðar um viðveruna og námið í okkar heittelskaða framhaldsskóla. Að auki töluðum báðum við samnemendur okkar um að gera helstu kostum FAS skil.

FAS býður upp á fjölbreytt námsúrval og ættu því sem flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hér er auðvitað hægt að taka hefðbundið stúdentspróf með mismunandi áherslum (t.d. með áherslu á listir og menningu, hug- og félagsvísindi, náttúru- og raunvísindi og/eða íþróttir). FAS býður einnig upp á rómaða fjallamennskubraut, þar sem nemendur læra hvernig hægt er að ferðast um óbyggðir landsins á sem öruggastan hátt og geta jafnframt opnað möguleika á því að verða leiðsögumenn. Hér er einnig vélstjórnarbraut, fyrir þá sem hafa áhuga á því að vinna með vélar og tæki. Að síðustu er boðið upp á hestabraut þar sem menn geta lært um hestamennsku og hrossahald.

Í FAS er svokallað áfangakerfi, ekki bekkjakerfi, svo hver nemandi getur lokið námi þaðan á eigin hraða og eigin forsendum. Í svona litlum skóla eru samskipti milli nemenda og kennara náin og ef maður þarf aðstoð getur maður labbað inn á kennarastofu og fengið þá hjálp sem maður þarf. Þar sem áfangakerfi hafa oft í för með sér göt á milli kennslustunda nemenda er lesstofa þar sem nemendur geta lært og unnið saman.
Að síðustu skal það tekið fram að FAS er lokaprófslaus skóli, það eru ekki eiginleg lokapróf heldur er svokallað lokamat. Nemendur fara í 10-15 mínútna viðtal til hvers kennara, ræða um námið í viðkomandi áfanga og svara spurningum sem kennarinn kann að spyrja. Kennarinn metur hvort nemandinn standist lokamatið. Lokaeinkunnir áfanga reiknast út frá verkefna- og mætingaeinkunnum yfir önnina. Það er algengur misskilningur að það séu aldrei próf í FAS, hér skal tekið fram að sumir kennarar kjósa að hafa stöðupróf yfir önnina í sínum áföngum.
Hér að neðan eru svör frá nokkrum nemendum um kostina við FAS:

  • Lokaprófslaus skóli
  • Skólakerfið er einfalt
  • Maður býr heima sem er ódýrara en að flytja
  • Aðstoð kennara er aðgengileg
  • Námið er fjölbreytt
  • Það er gaman á lesstofunni og í sameiginlegum nemendarýmum
  • T.d. Poolborð, fótboltaspil og borðspil
  • Fámennt en góðmennt
  • Náttúrufræðibrautin er mjög skemmtileg
    -Það eru skemmtilegir félagslegir viðburðir reglulega yfir önnina

Er í alvöru eitthvað félagslíf í svona litlum skóla?

Félagslíf skólans er í okkar höndum. Þó svo að það mæti kannski fáir stundum skemmtum við okkur konunglega. Það sem FAS hefur fram yfir stærri skóla hvað félagslega viðburði varðar er að það er miklu einfaldara að henda í skemmtilega og fjölbreytta viðburði með litlum fyrirvara. FAS hefur aðgang að Þrykkjunni og íþróttahúsinu og ef við biðjum um leyfi er lítið vesen að fá bíósalinn í Sindrabæ eða salinn hér í Nýheimum. Dæmi um viðburði eru Pubquiz, eða ,,Kráargátur’’, bíókvöld, LAN, bílafeluleikir, fatasund, leikir í íþróttahúsinu og auðvitað böll.
Það sem kemur helst á óvart við FAS er hvað maður kynnist mikið af fólki og eignast mikið af vinum. Áfangakerfið gerir það að verkum að maður er ekki bara með jafnöldrum sínum í kennslustundum, heldur líka eldri og yngri nemendum. Það er mjög lítil aldursskipting í FAS, í öllum vinahópum er fólk á mismunandi aldri og það er vel tekið á móti nýnemum (sjáið bara, þeir eru ekki einu sinni kallaðir busar!). Eins og í öllu öðru í lífinu verður maður að vilja að hafa gaman, ef maður mætir með opinn hug og til í stuð verður skólagangan svo mikið auðveldari og skemmtilegri. Það er alltaf fjör í FAS!

Höfundar: Anna Lára, Isabella Tigist, Nína, Helga, Siggerður, Marie Salm