Knattspyrnudeild Sindra sendir öllum þeim sem komu að Humarhátíð 2022 með einum eða öðrum hætti sérstakar þakkir fyrir sitt framlag til hátíðarinnar.
Án ykkar er engin hátíð og á það við um sjálfboðaliða, skemmtikrafta, þá sem lögðu til heimili sín og garða fyrir humarsúpuveislur, viðburðarhaldara og síðast en ekki síst alla þá sem komu að hátíðinni með styrkjum, vinnuframlagi og þátttöku í viðburðum.
Lagt var upp með að bjóða upp á hornfirska skemmtun og nýta þá krafta sem við höfum í bæjarfélaginu og erum við sérstaklega þakklát fyrir hversu margir voru tilbúnir til að taka þátt og fyrir fjölbreytta dagskrá þar sem allir fundu vonandi eitthvað við sitt hæfi.
Undirbúningur fyrir næstu hátíð hefst þegar í stað þegar farið verður yfir það sem gekk vel og það sem betur má fara og eru allar ábendingar vel þegnar auk þess sem við hvetjum alla Hornfirðinga til að huga að því hvort þeir geti lagt eitthvað að mörkum fyrir næstu hátíð, til að gera góða hátíð enn betri!