Spjallaði við steinana í Suðursveit

0
222

Í glugga bókasafnsins má sjá prjónað landslag með æðarfuglum á flugi ásamt símanúmeri; 537-4714, sem þið getið prufað að hringja í núna til að hlusta á leikarann Hannes Óla Ágústsson lýsa því. Verkið er eftir parið Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur, myndlistarkonu og Friðgeir Einarsson sviðslistarmann, sem að þessu sinni er listamaður vikunnar.
„Í sumar dvaldi ég í viku með fjölskyldunni í Sléttaleiti þar sem Rithöfundasambandið á hús,“ segir Friðgeir spurður út í hvort hann þekki eitthvað til á Hornafirði. „Vegna þess að börnin voru með reyndi ég ekki einu sinni að skrifa, skildi tölvuna eftir heima og naut þess í staðinn að vera úti í náttúrunni. Reyndar ákváðum við að hafa þetta alfarið „skjálaust“ frí, neituðum okkur um að horfa á sjónvarpið, skildum símana eftir frammi í bíslagi og höfðum húslestra á verkum Þórbergs. Þetta voru góðir dagar. Ég reyndi að spjalla við steinanna, þeir vildu lítið við mig tala, en það var hægt að lesa margt í þögnina.“
Hvernig listamaður er Friðgeir:
„Ég er rithöfundur og sviðslistamaður sem hefur gríðarlegan áhuga á hinu hversdagslega. Heimurinn hefur alltaf virst mér ákaflega framandi og stundum hefur mér liðið eins og ég sé eini sem er ekki búinn að fatta hvað er í gangi. Mér finnst athyglisvert hvað venjulegt fólk hefur ákveðið að taka sér fyrir hendur í jarðlífinu, þar með talinn ég sjálfur. Um þetta bjástur fjalla ég gjarnan í skáldskap, kannski dálítið eins og ég sé að skrifa reisubækur fyrir sjálfan mig og aðra sem gætu haft smekk fyrir því sama.“
Hvað heillar við æðafuglinn?
„Ég var ansi heillaður af dúninum, þó að reyndar sé lítið fjallað um hann í verkinu okkar Sigrúnar. Okkar þátttaka var lituð af því að við bjuggum í Noregi á covid-tímum og áttum þess vegna mjög erfitt með að ferðast. Við tókum þann pól í hæðina að fjalla um fuglinn úr fjarlægð og fókusera á þá fjarlægð sem við sem borgarbörn höfum við þá atvinnuhætti sem eru í meiri tengslum við náttúruna. En ég kann vel við þennan fugl, hann er viðkunnalegur, við erum ekkert að abbast upp á hvorn annan þegar við hittumst. Í öðru verki á sýningunni sjáum við skýrt hvers konar undraefni þetta er, með einstaka samloðunareiginleika; stór kúla af dún situr með lítilli festingu og blaktir varla í golunni sem lítil vifta skapar. Samt er þetta fislétt. Þetta er efni sem mannskepnan gæti ekki skapað af sjálfsdáðum.“
Listaverk Friðgeirs og Sigrúnar verður í glugga bókasafnsins næstu mánuði fyrir forvitna.