Þrístökk á Fagurhólsmýri

0
276
Málverk eftir Birgittu Karen Sveinsdóttur

Næstkomandi þriðjudag, 5. júlí kl. 13:00, fer fyrsti hluti Þrístökks fram í Sláturhúsinu á Fagurhólsmýri. Myndlistar­nemarnir Birgitta Karen Sveinsdóttir og Rein Rodemeier sem bæði nema listmálun við myndlistardeild Listaháskólans AKI í Hollandi sýna verk sín sem þau hafa unnið undanfarna mánuði hér í Öræfum, þar sem þau hafa tekið þátt í bústörfum á Hnappavöllum. Þemað í verkum þeirra nú tengist hringrás lífsins sem blasir við á vorin í fjárbúskap og efniviðinn sækja þau að hluta til í náttúruna í kring.

Steinunn Björg Ólafsdóttir

Rein er frá Hollandi en Birgitta er fædd á Akureyri. Hún hefur hins vegar verið með annan fótinn á Hnappa­völlum undanfarin ár, þar sem fjölskylda hennar býr.
Steinunn Björg Ólafsdóttir er uppalin í Öræfum en búsett í Keflavík. Steina er útskrifaður meistari í sköpun miðlun og frumkvöðlastarfi og finnur sér verkefni í sviðsuppfærslum, kórastarfi og tónleikum ásamt ýmsum hljóð- og myndvinnsluverkum. Þótt áherslan hafi lengst af verið á klassískan söng hefur hún einnig æft Complete Vocal tækni sem gerir hana jafnvíga á popp, rokk og jazz. Fyrir skömmu tók Steina þátt í flutningi á myndlistargjörningi eftir Evu Bjarnadóttur í Gömlubúðinni á Fagurhólsmýri en nú einblínir hún á trúbadorinn sem hún hefur verið að velta vöngum yfir og skoða.
Sýningin verður opinn þennan eina dag, frá kl. 13:00 til 21:00. Við skálum kl. 13:00 en kl 14:00 verður Steina með tónleika.

Við hlökkum til að sjá ykkur – aðgangur ókeypis.