Verið velkomin í FASK

0
622

Helstu verkefni á liðnu starfsári

Stjórn FASK fundaði 8 sinnum á reglulegum fundum starfsárið 2021/2022 ásamt því að eiga einn fund með Stjórn Ríki Vatnajökuls þar sem félögin ræddu m.a um aukið samstarf og verkaskiptingu á milli félaganna. Starfið var hefðbundið þar sem FASK fjallar um og ályktar um málefni líðandi stundar er varðar ferðaþjónustu í Austur Skaftafellssýslu ásamt því að sinna lögbundnum hlutverkum sínum hjá Markaðsstofu Suðurlands og Svæðisráði VJÞ. Ágúst Elvarsson er fulltrúi FASK hjá Markaðsstofu Suðurlands og Laufey Guðmundsdóttir er fulltrúi FASK hjá Svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs á Suðursvæði.
Helstu verkefni sem ber að nefna og komust í framkvæmd þetta starfsár, er aukið samstarf FASK, Ríki Vatnajökuls og Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem komið var á reglulegum fundum þessa lykilaðila er koma að uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. FASK fékk sæti áheyrnarfulltrúa í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem Ágúst Elvarsson er fulltrúi ferðamálafélaga sem eiga aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði ásamt Markaðsstofu Suðurlands. Málefni Vakans, Upplýsingamiðstöðva og úthlutunarreglur fyrir atvinnuleyfi innan Vatnajökulsþjóðgarðs voru fyrirferðarmikil í fundargerðum stjórnarinnar ásamt vörumerkjaþróun, án þess að niðurstaða fengist í þau mál.

Mikilvægi FASK í samfélagsuppbyggingu í Sveitarfélaginu Hornafirði

Eins og fram kemur eru málefnin bæði mörg og jafnframt mikilvæg. Stjórn FASK hvetur alla aðila í ferðaþjónustu til að gerast meðlimir FASK og styðja þannig við áframhaldandi og frekari framþróun ferðamála í Austur-Skaftafellssýslu. Það er afar mikilvægt að félagið fái inn fleiri félagsmenn sem eru tilbúnir að taka þátt í félagsstarfinu og leggja málefnum lið með umræðu og uppbyggilegri gagnrýni. Félaginu er ætlað að standa vörð um hagsmuni allra þeirra sem búsetu hafa í sveitarfélaginu og leggja stund á ferðaþjónustu. Því fleiri sem gerast aðilar að félaginu því sterkara umboð hefur FASK til málefnalegrar umræðu og ályktana til stjórnvalda sem almennt fara með málefni ferðaþjónustunnar. Hægt er að fara inn á heimasíðu félagsins www.ferdaskaft.is og nálgast upplýsingar um hvernig hægt er að skrá sig í félagið.
Aðalfundur félagsins fer fram fimmtudaginn 19. maí n.k í Golfskála Hornafjarðar kl 20:00 og eru allir velkomnir. Fundinum verða einnig gerð skil í gegnum google doc meeting og þeir sem áhuga hafa á að fá sendan fundarlink eru beðnir um að óska eftir slíkum link á faskstjorn@gmail.com

Helstu verkefni FASK næsta starfsár

Verkefnin framundan eru bæði krefjandi og spennandi. Stjórn FASK ætlar sér að hreyfa við og hafa áhrif á mikilvæg mál er varðar hagsmuni ferðaþjónustunnar í Austur – Skaftafellssýslu.
Ber þar helst að nefna áframhaldandi vinnu við innleiðingu gæðamála, málefni þjóðgarðsins og þróun á úthlutun atvinnuleyfa innan garðsins, námskeiðshald til handa ferðaþjónustuaðilum, málefni upplýsingamiðstöðvar, vörumerkjaþróun, ásamt því að fjölga félagsmönnum svo eitthvað sé nefnt. Reglulegir fundir verða á sínum stað og munu fulltrúar FASK halda áfram sínu góða starfi í stjórn Markaðsstofu Suðurlands, Svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs og Stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.
Við hvetjum alla til að mæta á aðalfund félagsins. Allir eru velkomnir og hægt er að kynna sér helstu málefni FASK á www.ferdaskaft.is

F.h Stjórnar FASK
Haukur Ingi Einarsson