Sveitarfélagi Hornafjörður heilsueflandi samfélag– hvað þýðir það?

0
322

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur frá árinu 2017 tekið þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag undir forystu landlæknisembættisins. En hvað þýðir það að vera heilsueflandi samfélag? Í fáum orðum þá gengur það út á það að efla og bæta hið manngerða umhverfi íbúanna eins og kostur er, draga úr ójöfnuði og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsuelflingarstarfi.
Verkefnið er einkum tvíþætt. Annars vegar það sem snýr að stefnumótun og starfsemi sveitarfélagsins en horfa þarf með „heilsueflingargleraugum“ á allar stefnur og allar áætlanir sveitarfélagsins. Hins vegar það sem snýr að viðhorfum og fræðslu. Það er nefnilega ekki nóg að bjóða upp á góða aðstöðu, henni þarf að fylgja fræðsla og hvatning sem stuðlar að jákvæðum viðhorfum til heilsueflandi lífsstíls s.s. fæðuvals, hreyfingar, svefns og félagslegra tengsla.
Hugmyndafræði heilsueflandi samfélags stendur ekki ein og sér heldur tengist hún barnvænu sveitarfélagi en sveitarfélagið vinnur einnig að innleiðingu þess. Báðar stefnurnar leggja áherslu á jöfnuð, jafnrétti og fjölskylduvænt samfélag. Þessar stefnur tengjast svo heimsmarkmiðunum og þeirri sjálfbærnihugsun sem við flest erum að reyna að tileinka okkur um þessar mundir.
Þátttaka íbúa til að hafa áhrif á áherslur í heilsueflandi samfélagi skiptir miklu máli og því er starfandi svokallað Lýðheilsuráð sem er stýrihópur fyrir heilsueflandi samfélag í sveitarfélaginu. Í Lýðheilsuráði eiga m.a. sæti fulltrúi frá HSU, félagsþjónustunni, ungmenna_ráði, Sindra, foreldrafélagi grunnskólans og fulltrúar frá leik-, grunn- og framhaldsskóla sem allir eru heilsueflandi skólar. Þessir fulltrúar koma með hugmyndir víða að úr samfélaginu inn í verkefnið en þar fyrir utan tekur tómstundafulltrúi sveitarfélagsins fegins hendi við öllum góðum ábendingum um það sem betur má fara.