Í tilefni af 60 ára afmæli Leikfélags Hornafjarðar er nú verið að æfa nýtt íslenskt leikrit sem ber nafnið „Hvert örstutt spor“. Stefán Sturla skrifaði handritið sem byggir á leikritinu „Silfurtunglið“ eftir Halldór Laxness. Áætluð frumsýning er þann 18. mars. Að uppsetningunni standa Leikfélag Hornafjarðar og sviðslistanemar FAS.
Æfingar hófust í janúar við afar erfiðar aðstæður í kaffiteríu Nýheima, Nýtorgi. Nú eru hins vegar æfingar hafnar í Mánagarði og er öll tæknivinna, leikmyndasmíði og önnur undirbúningsvinna unnin jöfnum höndum í menningarhluta Mánagarðs. Vonandi verður hugað sem fyrst að framtíðarhúsnæði fyrir menningu í sveitarfélaginu til lengri tíma.
Verkið fjallar um unga fólkið sem dreymir um frægð og frama og er tilbúið að leggja á sig „hvað sem er“ til að ná þeim árangri. Leikritið gerist í nútímanum og er með söngvum og dassi af samfélagsrýni, Twitter- og Instagram færslum og skemmtilegum hversdagsuppákomum.
Listrænir stjórnendur eru Stefán Sturla leikstjóri og höfundur, Heiðar Sigurðsson tónlistarstjóri, Lind Draumland búningar og grímur, Skrýmir Árnason kvikmyndaverkefni, Hólmfríður Bryndís Þrúðmarsdóttir dans, Tim Junge hönnun, Þorsteinn Sigurbergsson ljósahönnun og Birna J. Magnúsdóttir förðun.