Stjórn Háskólafélags Suðurlands ákvað á fundi sínum nýverið að ráða Ingunni Jónsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins en auglýst var eftir umsóknum í starfið í maí sl. Sigurður Sigursveinsson, sem gegnt hefur starfinu sl. 12 ár, lætur af störfum vegna aldurs.
Ingunn er menntaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands sem og með MPM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Árið 2013 var Ingunn ráðinn sem sameiginlegur verkefnastjóri Háskólafélags Suðurlands og Matís en árið 2016 færði hún sig alfarið yfir til Háskólafélagsins. Ingunn hefur einnig sinnt verkefnastjórnun og ráðgjöf fyrir Sóknaráætlun Suðurlands á vegum SASS ásamt því að stýra og taka þátt í fjölda erlendra samstarfsverkefna.
Stjórn félagsins færir Sigurði miklar og góðar þakkir fyrir frábær störf í þágu félagsins á mótunarárum þess. Jafnframt býður stjórnin Ingunni hjartanlega velkomna til starfa en Ingunn hefur starfað hjá félaginu um árabil við góðan orðstír. Ingunn hóf störf sem framkvæmdastjóri núna í ágúst.