Hengibrú á Víðidalsá

0
1138
Steinn Hrútur

Í síðasta tölublaði sögðum við frá hjólabrú sem var smíðuð til að þvera Hnappadalsá inn við Stafafell í Lóni. En samhliða þeirri brúarsmíð var einnig unnið að því að koma upp 29 metra langri hengibrú yfir Víðidalsá. Ekki er auðvelt verk að koma upp brú inn á hálendi þar sem samgöngur eru engar. Brúin var smíðuð í Reykjavík af Steini Hrúti Eiríkssyni hjá Brimuxa ehf. og svo var brúarefnið og verkfæri til verksins flutt austur með bíl með kerru í lok maí í fyrra. „Við fórum með búnaðinn upp á Öxi, milli Berufjarðar og Héraðs þaðan var hann fluttur áfram með vélsleðum í Víðidal, um 60 km leið. Voru aðstæður erfiðar vegna mikilla leysinga og voru brúarefni og verkfæri skilin eftir á vestur brún Víðidals.“ segir Steinn. Næsta ferð var svo farin í lok júní. Flutningaþyrla var í verkefnum á Austurlandi og var hún fengin að aðstoða við að flytja vistir og tjöld inn í Víðidal, einn fór með þyrlunni inn í Víðidal og sá um uppsetningu á tjaldbúðum ásamt fleiru. Þrír menn komu til viðbótar nokkrum dögum síðar, þá var viðbótarbúnaður fluttur upp á Illakamb og var hann svo borinn í bakpokum alla leið inn í Víðidal.

Ein af fjölmörgum vírfestingum sem þurfti að festa í klappirnar

„Þarna hófst vinna við hreinsa klappir og koma fyrir traustum festingum fyrir burðarvíra. Tveimur vikum seinna fórum við svo með vinnuhóp inneftir til að reisa brúna, í hópnum var yfirsmiður, vélstjóri, hönnuður og byggingatæknifræðingur ásamt sjálfboðaliðum sem voru vanir verklegum framkvæmdum. „Notast var við eldri brúarstöpla sem voru steyptir fyrir fjölmörgum árum. Þá voru reistir burðarturnarnir, brúargólf og handrið smíðuð ásamt því að setja upp burðarvírana. Um miðjan ágúst í fyrra var svo farið inneftir og gengið var frá göngustígum að brúnni, og landgangar fullsmíðaðir. Strekkt var á burðarvírum og svæðið hreinsað og snyrt. Auk þess var gengið frá tækjum, verkfærum og öðrum útbúnaði til veturs. Steinn Hrútur fór svo inn í Víðidal nú um miðjan apríl til að athuga með brúna og hvernig hún kæmi undan vetri. Brúin var óskemmd en eitthvað af verkfærum og búnaði hafði skemmst vegna raka og myglu. „Við höfðum smíðað lítið skýli fyrir verkfæri og annan búnað, skýlið fékk að sjálfsögðu nafnið Hrútakofinn, enda sett yfir litla tótt, sem ekki ósennilega hafi verið hrútakofi á 19. öld þegar fólk bjó í dalnum.“ „Gunnlaugur B. Ólafsson í Stafafelli sótti um styrk til brúarsmíðarnnar hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og lagði til eigið fé sem framlag á móti. Hann aðstoðaði einnig starfsmenn Brimuxa við smíðina á verkstæðinu og koma að flutningi og uppsetningu brúarinnar. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að allir þeir sem komu að flutningi og uppsetningu gerðu það sem sjálfboðaliðar og gáfu vinnu sína svo svæðið væri öruggara fyrir ferðamenn og opnaði betur á nýjar leiðir inn á Lónsöræfum. Einnig sýndu fjölmargir aðilar og rekstraraðilar skilning á mikilvægi þessa verkefnis og aðstoðuðu“. Steinn áætlar að um 22 langir vinnudagar hafið farið í uppsetningu, frágang á svæðinu og flutningum til og frá byggða í þetta verk inni á öræfum. Eitthvað af búnaði er á svæðinu sem ekki verður unnt að koma til byggða fyrr en næsta vetur þegar snjóa fer, og hægt er að ferja búnaðinn á vélsleðum.