Núna í haust byrjaði nýtt samstarfsverkefni í FAS undir merkjum Nordplus áætlunarinnar. Þetta verkefni er til þriggja ára og er á milli Brønnøysund videregående skole í Noregi, Vaala Upper Secondary School í Finnlandi og FAS. Skólarnir eiga það sameiginlegt að vera fremur litlir og liggja allir á svipaðri breiddargráðu. Verkefnið ber yfirskriftina Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway og fjallar um uppruna, menningu og sjálfbær samfélög þátttökulandanna. Verkefnið er einnig tengt völdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í hverju landi taka 10 nemendur þátt í sameiginlegri verkefnavinnu en í Noregi eru mun fleiri sem njóta góðs af vinnunni. Lögð er áhersla á náttúruskoðun og breytingar sem eru að verða vegna breytts loftslags. Því var ákveðið að tengja verkefnið inn í jarðvanga í nánd við þátttökuskólana og fá sérfræðinga þar til að segja frá breytingum og sýna þær. Hér á Íslandi tekur einnig Vatnajökulsþjóðgarður þátt í verkefninu en á suðausturhorninu sjáum við ótrúlegar breytingar á t.d. jöklunum.
Í verkefninu er gert ráð fyrir að nemendum gefist kostur á að heimsækja samstarfsaðilana og átti fyrsta heimsóknin að vera til Íslands í lok september. Vegna COVID-19 eru miklar takmarkanir á ferðalögum og í upphafi annar var ákveðið að leita annarra leiða til láta verkefnið ganga. Lausnin felst í því að nýta tæknina og var keyptur búnaður sem gerir það mögulegt að fara út í náttúruna og miðla efni þaðan í streymi í gegnum YouTube. Dagana 28. og 29. september var farið með íslenska hópinn á fyrirfram valda staði þar sem sérfræðingar frá Kötlu jarðvangi annars vegar og Vatnajökulsþjóðgarði hins vegar sáu um að miðla upplýsingum til okkar nemenda sem voru á staðnum og svo til annarra þátttakenda í gegnum streymi. Þessi tilraun gekk bærilega þó vissulega hafi verið einhverjir hnökrar eins og t.d. að netsamband væri ekki nógu stöðugt til að halda úti streymi eins og raunin varð í Lakagígum. Í þessari ferð var líka markvisst verið að efla staðarvitund nemenda með því að láta þá reglulega gefa gaum að nærumhverfinu og því sem fyrir augu bar.
Auk þess að fara í ferð unnu hóparnir saman í gegnum Teams. Þátttakendur kynntu lönd sín og þjóð og síðasta daginn var svo sameiginleg verkefnavinna þar sem tveir nemendur frá hverju landi unnu saman í hóp.
Á næstu önn verður haldið áfram og þá tekur Noregur boltann og áherslan þá önnina verður á heimsmarkmið 12 sem fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu. Nú er bara að vona að okkur gefist tækifæri á að fara til Noregs undir næsta vor.
Líkt og í flestum samstarfsverkefnum í FAS er allur afrakstur vinnunnar settur á sameiginlega vefsíðu https://geoheritage.fas.is/
Hjördís Skírnisdóttir