Útgáfutónleikar hjá Mókrókum

0
917
Mókrókar. Mynd: Jenný Mikaelsdóttir

Tríóið Mókrókar efnir til útgáfutónleika þann 18. júlí í tilefni af útgáfu á sinni fyrstu plötu, MÓK. Tónleikarnir verða í Hafnarkirkju og hefjast þeir kl. 17:00. Miðaverð er 2500kr.
Platan MÓK samanstendur af tónsmíðum eftir meðlimi sveitarinnar. Platan var tekin upp í maí 2019 og kom út í byrjun mars 2020. Tónlist Mókróka má lýsa sem tilraunakenndum nútímadjassi sem einkennist af frjálsum spuna.
Hljómsveitin Mókrókar var stofnuð snemma árs 2018 af Benjamíni Gísla Einarssyni, Þóri Hólm Jónssyni og hornfirðingnum Þorkeli Ragnari Grétarssyni en hann ætti að vera hornfirskum tónlistarunnendum vel kunnur. Þeir lentu í 2. sæti í Músíktilraunum 2018 og hlaut Þorkell Ragnar verðlaun sem gítarleikari Músíktilrauna, síðan þá hafa þeir komið víða fram, bæði á Íslandi og erlendis. Óhætt er að segja að þeir hafi komið með nýjan og ferskan blæ inn í íslensku djass-senuna.