Íbúakönnun

0
1021

Bæjarstjórn óskar eftir að íbúar taki þátt í stuttri könnun vegna stefnumótunarvinnu í tenglsum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Sveitarfélagið Hornafjörður setti í vetur af stað vinnu við stefnumótun sveitarfélagsins með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Hluti þeirrar vinnu er mótun stefnu til framtíðar, val á gildum og framtíðarsýn sveitarfélagsins ásamt kynningu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það skiptir miklu máli fyrir sveitarfélag að gildi íbúa og þeirra sem stjórna séu svipuð eða í takt. Gildi eru víðtækt siðferðilegt hugtak um verðmæti sem bæta samfélög og einstaklinga. Í könnuninni má finna nokkur gildi sem við leggjum til að valið verði á milli.
Áætlun um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Ljóst er að útrýming fátæktar í allri sinni mynd og umfangi, að meðtalinni sárafátækt, er stærsta verkefnið á heimsvísu og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir sjálfbærri þróun. Öll lönd og haghafar munu, í gegnum samstarfsverkefni, hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Með heimsmarkmiðunum verða stigin afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni. Sveitarfélagið Hornafjörður áformar að taka þátt í þeirri vinnu.
Fyrirhugað er að halda íbúafund í haust til að fá fram sjónarmið íbúa í stefnumótunarvinnuna. Jafnframt teljum við mikilvægt að kanna hug íbúa á þessu stigi í ljósi þess langar okkur að biðja þig um að svara stuttri spurningakönnun sem við getum notað í stefnumótunarvinnunni því þitt álit skiptir miklu máli. Við biðjum þig um að svara könnuninni fyrir 31. júlí næstkomandi. Niðurstöður könnunarinnar verða síðan kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins og á íbúafundi sem haldinn verður í haust. Fundurinn og efni hans verður kynnt nánar síðar.
Hlekkur á könnunina er á heimasíðu Sveitarfélagsins,
www. hornafjordur.is